Félagsráðgjöf háskólanema býður stúdentum og fjölskyldum aðstoð
Háskólanemar og fjölskyldur þeirra geta fengið ráðgjöf sem snertir fjölskyldumálefni, uppeldi og samskipti hjá Félagsráðgjöf háskólanema sem er að hefja annað starfsár sitt.
Markmiðið með Félagsráðgjöf háskólanema er í senn að þjálfa nemendur í starfsréttindanámi í félagsráðgjöf í að veita faglega ráðgjöf og bjóða háskólanemum stuðning í erfiðum málum sem þeir kunna að glíma við. Félagsráðgjafarnemarnir vinna undir öflugri handleiðslu reyndra/klínískra félagsráðgjafa og beita gagnreyndum aðferðum við greiningu, mat og úrræði.
Hjá Félagsráðgjöf háskólanema er veitt
- Fjármálaráðgjöf
- Fjölskylduráðgjöf
- Ráðgjöf vegna samþættingar náms og fjölskyldulífs
- Ráðgjöf um réttindi fólks innan félagslega kerfisins
- Samskiptaráðgjöf
- Uppeldisráðgjöf
Þjónustan er gjaldfrjáls og fer fram á Aragötu 9.
Nemendur geta sótt um þjónustuna í gegnum vefsíðu Félagsráðgjafar háskólanema en einnig er hægt að senda fyrirspurnir í gegnum netfangið felradgjof@hi.is.