Skip to main content
9. maí 2023

Háskólaráðherra heimsótti Viðskiptafræðideild

Háskólaráðherra heimsótti Viðskiptafræðideild - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kom í heimsókn til Viðskiptafræðideildar í gær, mánudag, í kjölfar umræðna um nám í viðskiptafræði. Heimsóknin var vettvangur fyrir samtal á milli ráðherra og deildarfólks um málefni viðskiptafræðinnar og stöðu hennar innan háskólanna. 

Nám í viðskiptafræði býður upp á fjölbreytta möguleika

Gylfi Magnússon deildarforseti, Jón Atli Benediktsson rektor, Stefán Hrafn Jónsson, sviðsforseti Félagsvísindasviðs, og kennarar við deildina kynntu ráðherra fyrir því fjölbreytta starfi sem á sér stað innan Viðskiptafræðideildar. Þar var meðal annars komið inn á það hvernig nám við deildina nýtist fjölbreyttum hópi fólks og á fjölbreyttum sviðum samfélagsins, hver svo sem bakgrunnur fólks er. Ráðherra og aðrir gestir voru sammála því en bent var á að nemendur í meistaranámi við deildina komi meðal annars úr jafnólíkum deildum og hjúkrunarfræði og verkfræði. Nýsköpun og framtíð háskólanáms og háskóla á Íslandi var einnig til umræðu og leyfði ráðherra deildarfólki að skyggnast inn í það sem er á döfinni innan ráðuneytisins í þeim efnum. 

Rannsóknarstarf deildarinnar

Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við deildina, færði ráðherra þrjú rit sem komið hafa út í ritröðinni Rannsóknir í viðskiptafræði þar sem má finna fjölbreyttar rannsóknir á sviði viðskiptafræðinnar. Þar má meðal annars nefna rannsóknir á sviði sjávarútvegs, iðnaðar, orku, fjármála og nýsköpunar. Meðal þess sem ráðherra hampaði deildinni fyrir er gott rannsóknarstarf og rannsóknarsamstarf deildarinnar við stofnanir. Vísaði þar í samstarf við Matís og fleiri stofnanir og fyrirtæki en mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við atvinnulífið og öflug fyrirtæki, meðal annars á sviði vísinda, var einnig rætt. 

Mikilvægt að fjölga nemendum í háskólanámi

Ráðherra kvaðst mjög opin fyrir því að eiga í virku samtali við háskólasamfélagið og starfsfólk þess og sagðist hún fagna öllum ábendingum og spurningum. Þá lagði ráðherra einnig mikla áherslu á að þó að það þyrfti að fjölga nemendum í einni grein þyrfti ekki að fækka í öðrum greinum, það væri mikilvægt að fjölga nemendum almennt í háskólanámi. Einnig þyrfti að fjölga körlum sem sækja nám við háskóla landsins. Vísaði ráðherra þar til átaks sem er að hefjast á vegum ráðuneytisins og snýr að því að hvetja stráka til þess að bíða ekki með háskólanám en hvergi er hlutfall karlkyns háskólanema lægra en á Íslandi. 

Myndir Kristins Ingvarssonar frá heimsókn ráðherra má sjá hér að neðan.
 

Ráðherra ásamt rektor, forseta Félagsvísindasviðs og starfsfólki Viðskiptafræðideildar.
Gylfi Magnússon, forseti Viðskiptafræðideildar, segir frá starfi hennar.
Ráðherra og starfsfólk HÍ
Gylfi Magnússon deildarforseti, Jón Atli Benediktsson rektor, Stefán Hrafn Jónsson, sviðsforseti Félagsvísindasviðs, og kennarar við deildina kynntu ráðherra fyrir því fjölbreytta starfi sem á sér stað innan Viðskiptafræðideildar.
Nýsköpun og framtíð háskólanáms og háskóla á Íslandi var einnig til umræðu og leyfði ráðherra deildarfólki að skyggnast inn í það sem er á döfinni innan ráðuneytisins í þeim efnum.