Skip to main content
25. október 2022

Nýjustu rannsóknir í félagsvísindum á Þjóðarspeglinum

Nýjustu rannsóknir í félagsvísindum á Þjóðarspeglinum - á vefsíðu Háskóla Íslands
  • Sjónum beint að félagslegri nýsköpun í opnunarfyrirlestrum

Netafbrot og nýsköpun, ferðamál og fjölmiðlar, ójöfnuður og heilbrigði, efnahagsmál og atvinnulíf, loftslag og umhverfi, dægurmenning og áhrif samfélagsmiðla á ungt fólk er meðal þess sem verður til umfjöllunar á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum, sem fram fer í 23. sinn í Háskóla Íslands dagana 27. og 28. október. Ráðstefnan er öllum opin.

Þjóðarspegillinn fer nú fram aftur á háskólasvæðinu eftir að hafa verið alfarið á netinu síðustu tvö ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ráðstefnan verður formlega sett fimmtudaginn 27. október í Hátíðasal HÍ með inngangsfyrirlestrum um hinar ýmsu hliðar félagslegrar nýsköpunar en í henni felst m.a. að þróa og miðla lausnum við áskorunum sem snerta kerfi samfélagsins og umhverfi og stuðla þannig að félagslegum framförum. 

Meginþungi dagskrárinnar verður föstudaginn 28. október en þá verða kynntar 160 rannsóknir í yfir 30 málstofum sem snerta allar hliðar félagsvísindanna. Þátttakendur koma úr hópi bæði nemenda og starfsfólks Háskólans auk fræðafólks við aðra háskóla, bæði innlenda og erlenda, og sérfræðinga við ýmsar stofnanir samfélagsins. Þau munu m.a. fjalla um kvenmorð, ójöfnuð í samfélaginu og á vinnumarkaði, samspil fjölmiðla og samfélagsmiðla, nýsköpun og sjálfbærni, öldrun íslenska hagkerfisins, skörun bókmennta og lögfræði, réttindi barna, stjórnun og mannauðs- og markaðsmál, áhrif COVID-19-faraldursins á vinnumarkað,  áhrif menningar á barneignir, þjóðfræði í feminísku ljósi og samlífi fólks og örvera, svo dæmi séu tekin. 

Hægt er að kynna sér glæsilega dagskrá Þjóðarspegilsins og ágrip einstakra erinda á á vef ráðstefnunnar.
 

Gimli