Skip to main content
28. júní 2022

Býður upp á stærðfræðibúðir fyrir stelpur og stálp í sumar

Býður upp á stærðfræðibúðir fyrir stelpur og stálp í sumar - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Stærðfræðin er svo ótrúlega stór og fjölbreyttur heimur af undirgreinum og uppgötvunum sem skýra hvað er að gerast á bak við tjöldin í kringum okkur, hvort sem um er að ræða líkindafræði sem kemur upp í daglegu lífi, ferli sem hlutir ganga í gegnum, fjölda krónublaða á blómum eða dulkóðun og algebru sem stýra öryggiskerfum okkar,“ segir Nanna Kristjánsdóttir, BS-nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands. Hún mun í annað sinn bjóða upp á vikulangar sumarbúðir í stærðfræði í húsakynnum HÍ í ágúst en með því vill hún kveikja áhuga hjá fleiri stelpum á unglingsaldri á stærðfræði og vinna bug á ýmsum staðalmyndum um greinina.

Sumarbúðirnar bera nafnið Stelpur diffra og fara fram dagana 8.-12. ágúst. „Stelpur diffra er fyrir áhugasamar stelpur og stálp á framhaldsskólaaldri þar sem við köfum dýpra í alls konar undirgreinar stærðfræðinnar. Sumu gætu þátttakendur hafa heyrt af áður en annað gæti verið alveg nýtt fyrir þeim þar sem verið er að skoða stærðfræði umfram það sem kennt er í framhaldsskólum og á annan máta. Markmiðið er meðal annars að sýna þann fjölbreytta heim sem stærðfræði hefur upp á að bjóða en líka bara að kynnast og hafa gaman!“ segir Nanna.

Vill gera stelpur að pönkurum innan stærðfræðinnar

Hugmyndin að stærðfræðibúðunum kviknaði þegar Nanna var að ljúka námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir tveimur árum. „Kveikjan er í raun tvíþætt. Mig langaði sjálfa að fara í stærðfræðinámsbúðir sem haldnar eru í alls konar myndum erlendis en þátttaka í þeim kostar vanalega hálfan handlegginn fyrir utan fyrirhöfnina í kringum flug, gistingu og fleira. Hinn þátturinn er sá að það er mikill kynjahalli innan stærðfræðinnar sem sést bæði í stærðfræðikeppnum og eftir því sem farið er ofar í stærðfræðinámi,“ segir Nanna.

Nanna vann lokaverkefni í MH þar sem hún skoðaði hvernig mætti setja upp slíkar námsbúðir hér á landi sem væru auk þess í svipuðum anda og sambærilegar búðir eins og Stelpur rokka „sem gefa stelpum og stálpum tækifæri til þess að tileinka tíma til þess sem þau hafa mikinn áhuga á og vilja skoða betur samhliða sjálfstyrkingu. Í raun að gera stelpur að smá pönkurum innan stærðfræðinnar!“

Mikil ánægja hjá þátttakendum í fyrra

Nanna hóf nám í stærðfræði við Háskóla Íslands haustið 2020 og með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna þróaði hún hugmyndina frekar í fyrrasumar og bauð þá upp á sumarbúðirnar í fyrsta sinn. Þar naut hún m.a. leiðsagnar Önnu Helgu Jónsdóttur, dósents í tölfræði, og Bjarnheiðar Kristinsdóttur, aðjunkts í stærðfræðimenntun.  

annaogbjarnheidur

Leiðbeinendur Nönnu, þær Anna Helga Jónsdóttir og Bjarnheiður Kristinsdóttir, voru meðal þeirra sem heimsóttu sumarbúðirnar í fyrra.

Í námskeiðinu fara þátttakendur m.a. í gegnum þær greinar stærðfræðinnar sem falla undir Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og spreyta sig á gömlum dæmum þaðan, fá heimsóknir, kynningar og kennslu frá stærðfræðimenntuðum konum sem starfa víða í samfélaginu og fást við bæði þrautir og verkefni sem varpa skemmtilegu og oft óvæntu ljósi á nytsemi stærðfræðinnar og tengslum hennar við t.d. listir. „Með búðunum í fyrra fengu þær stelpur sem tóku þátt innsýn inn í líf og vinnu stærðfræðinga, hittu flottar fyrirmyndir og nokkrar tóku það fram að búðirnar hefðu gefið þeim tækifæri til að læra og kunna að meta stærðfræði í stærra samhengi en bara að kunna námsefnið utan að fyrir næsta próf. Nú erum við einnig komin í samstarf við Vísindasmiðju Háskóla Íslands og fleiri aðila með það að markmiði að auka enn frekar stærðfræðimiðlun almennt,“ segir Nanna.

Aðspurð segir Nanna mikla þörf á að hvetja fleiri stelpur til að leggja fyrir sig stærðfræði og tengdar greinar. „Eins og í öllu skiptir fjölbreytni máli og það verður enn augljósara þegar við skoðum nánar alla þá fleti lífs okkar sem stærðfræði hefur áhrif á í síauknum mæli. Það er mikilvægt að stór hópur fólks með margs konar reynsluheima og þekkingu sé þar á bak við, til dæmis þegar litið er til þróunar gervigreindar og hönnunar reiknirita (algóriþma),“ bendir Nanna á.

Óhætt er að segja að verkefnið hafi farið glimrandi vel af stað í fyrra eins og meðfylgjandi umsagnir þátttakenda vitna um:

  • „Sé núna að stærðfræðingar hafa heilmarga starfsmöguleika. Starf þeirra er á einhverju sviði og að sjá um að reikna og vinna í því.“
  • „Stærðfræðingar gera alls konar. Sumir vinna sem kennarar eða prófessorar en aðrir vinna t.d. í lyfjabransanum. Mér fannst ég læra margt um störf stærðfræðinga í búðunum, og núna veit ég meira en ég vissi fyrir þær.“
  • „Ég lærði fullt af nýjum hlutum sem voru bæði áhugaverðir og skemmtilegir. Hluti sem mætti alveg kenna eða a.m.k. fara yfir í skólum landsins.“
  • „Já, er búin að læra fullt af stærðfræði sem ég hef aldrei lært í skólanum. Svo var þetta líka bara skemmtilegt. Vissi líka ekki að það væri svona mikið af flottum stærðfræðikonum á Íslandi.“

Tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Verkefnið Stelpur diffra var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrr á þessu ári en aðeins sex verkefnum háskólanema, sem unnin eru með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna ár hvert, hlotnast sá heiður. Við þetta má bæta að Nanna hefur í vetur og vor verið með gríðarvinsæl námskeið í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Háskólalest skólans þar sem grunnskólanemar kynnast stærðfræðinni m.a. í gegnum dulkóðun.

Nanna Kristjánsdóttir að störfum í Vísindasmiðju Háskóla Íslands

Nanna að störfum í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Aðspurð segir Nanna mikla þörf á að hvetja fleiri stelpur til að leggja fyrir sig stærðfræði og tengdar greinar. „Eins og í öllu skiptir fjölbreytni máli og það verður enn augljósara þegar við skoðum nánar alla þá fleti lífs okkar sem stærðfræði hefur áhrif á í síauknum mæli. Það er mikilvægt að stór hópur fólks með margs konar reynsluheima og þekkingu sé þar á bak við, til dæmis þegar litið er til þróunar gervigreindar og hönnunar reiknirita (algóriþma),“ bendir Nanna á.

Skráning hafin í sumarbúðirnar

Sem fyrr segir fara stærðfræðibúðirnar Stelpur diffra fram 8.-12. ágúst og hægt er að skrá sig til leiks á vefsíðunni stelpurdiffra.is. „Við leggjum áherslu á menntun óháð fjárhag í búðunum og því er þátttökugjaldið aðeins 3.000 kr., sem inniheldur kennslu, mat, námsgögn og fleira. Á vefsíðunni má einnig finna leiðir til að ná í okkur skyldu einhverjar spurningar vakna,“ segir Nanna og hvetur áhugasamar að kynna sér námsbúðirnar.

Nanna Kristjánsdóttir