Blindravinafélagið styrkir rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum
Blindravinafélag Íslands og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands hafa gert með sér samning um að félagið styrki doktorsrannsókn í fötlunarfræði sem nú stendur yfir og snýr að ofbeldi gegn fötluðum konum. Helga Eysteinsdóttir, formaður Blindravinafélagsins, Rannveig Traustadóttir, prófessor emerita og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, undirrituðu samninginn á rektorsskrifstofu í vikunni.
Eliona Gjecaj, doktorsnemi í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, vinnur rannsóknina undir leiðsögn Rannveigar Traustadóttur og Önnu Lawson, prófessors við Leeds-háskóla. Hún ber heitið „Fatlaðar konur og ofbeldi: Aðengi að réttlæti“ og þar er sjónum beint að reynslu fatlaðra kvenna af mismunandi tegundum ofbeldis, reynslu þeirra af að tilkynna ofbeldið og því ferli sem þá tekur við og snýr m.a. að lögreglurannsókn, hugsanlegri ákæru og málssókn fyrir dómstólum. Í rannsóknini er er fléttað saman sjónarmiðum mannréttinda, fötlunarfræða, kynjafræða og lögfræði til að öðlast sem heildstæðasta mynd af viðfangsefninu með áherslu á aðgengi fatlaðra kvenna að réttlæti.
Gagna verður aflað með viðtölum við fatlaðar konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi, aðila innan réttrvörslukerfisins og aðra sem koma að málum kvennanna og/eða styðja þær við slíkar aðstæður. Jafnframt fer fram greining á dómsskjölum, lögum og öðrum opinberum gögnum og litið verður til alþjóðlegra mannréttindasáttmála.
Styrkur Blindravinafélagsins er til tólf mánaða og er að upphæð sjö milljónir króna.