Fagvitund blaðamanna sterk en faglegt sjálfstæði undir þrýstingi
Blaðamannadeginum er fagnað í dag en innan Háskóla Íslands er bæði unnið að því að mennta fólk til starfa í fjölmiðlum og rannsaka aðbúnað blaða- og fréttamanna og afstöðu þeirra til starfa sinna. Deginum verður fagnað með ýmsum hætti en jafnframt er framhaldsnám í blaða- og fréttamennsku kynnt á opnu húsi í Háskóla Íslands laugardaginn 2. apríl.
Það er Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir Blaðamannadeginum en meðal samstarfsaðila er námsbraut í blaða- og fréttamennsku við HÍ. Markmið dagsins er að vekja athygli a mikilvægi blaðamennsku og vekja áhuga á fjölmiðlum og því mikilvæga starfi sem blaðamenn vinna í þágu samfélags og lýðræðis. Meðal þess sem boðið verður upp á á deginum eru heimsóknir á fjölmiðla og málþing um blaðamennsku en einnig verða veitt Blaðamannaverðlaunin 2021.
Oft hefur verið rætt um fjölmiðla sem fjórða valdið í samfélaginu en þar er vísað til hlutverks blaða- og fréttamanna að veita hinum þremur meginstoðum valds í lýðræðisríkjum, framkvæmdavaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi, aðhald fyrir hönd almennings með gagnrýnu eftirliti og spurningum. Um leið er það hlutverk fjölmiðla að upplýsa, fræða og skemmta almenningi á ýmsan hátt.
Staða fjölmiðla í samfélaginu hefur breyst töluvert á síðustu árum, ekki síst vegna hinnar starfrænu byltingar sem hefur í senn skapað ný tækifæri til upplýsingamiðlunar fyrir blaðamenn og skekið þann auglýsingamarkað sem margir fjölmiðlar reiða sig á. Því hafa stjórnvöld hér á landi og víða annars staðar tekið upp opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla til að gera þeim betur kleift að rækja hlutverk sitt.
Rannsaka viðhorf blaðamanna til starfsins
Háskóli Íslands hefur um árabil menntað fólk til starfa á fjölmiðlum, m.a. í gegnum meistaranámsleið í blaða- og fréttmennsku. Þaðan hefur stór hópur útskrifast og látið mikið að sér kveða í hinum ólíku gerðum fjölmiðla. Jafnframt býður skólinn upp á styttri viðbótarnámsleið í greininni á framhaldsstigi til 30 eininga.
Innan skólans hafa jafnframt farið fram fjölbreyttar rannsóknir á stöðu fjölmiðla og viðhorfum blaða- og fréttamanna til starfsins. Á málþingi sem Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands og Blaðamannafélag Íslands héldu í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ í febrúar sl. og fjallaði um opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla kynnti Valgerður Jóhannsdóttir, lektor og umsjónarmaður meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, fyrstu niðurstöður nýrrar rannsóknar á afstöðu íslenskra blaða- og fréttamanna til starfsins. Rannsóknin er hluti af stórri alþjóðlegri samanburðarrannsókn, Worlds of Journalism Study, sem lögð var fyrir blaða- og fréttamenn í 110 löndum. Hér á landi var hún lögð fyrir í fyrra í samstarfi fræðafólks við HÍ og HA en hafði síðast verið framkvæmd árið 2012.
Mikilvægt að fylgjast með valdhöfum og vinna gegn röngum upplýsingum
Niðurstöðurnar leiða m.a. í ljós að 85% svarenda telja það ákaflega eða mjög mikilvægt að vera óhlutdrægur í starfi og 92% að hlutverk blaða- og fréttamanna sé að greina og skýra atburði líðandi stundar. Þá telja ríflega 4 af hverjum 5 blaða- og fréttamönnum það mikilvægan hlut í starfi sínu að fylgjast grannt með þeim sem völdin hafa en árið 2012 var þetta hlutfall um 45%. Enn fremur telja um 87% það mikilvægan hluta af starfinu að vinna gegn röngum og misvísandi upplýsingum. Ríflega helmingur telur það enn fremur ákaflega eða mjög mikilvægan hluta af starfinu að veita þær upplýsingar sem fólk þarf til að mynda sér pólitískar skoðanir og 40% telja það mikilvægt hlutverk að veita skemmtun og afþreyingu.
Rannsóknin leiðir einnig í ljós að hlutfallslega færri telja atriði eins og tímamörk, aðgang að mannaafla og auðlindum og aðgang að upplýsingum hafa mikil áhrif á störf sín nú heldur en árið 2012. Þá sýnir rannsóknin að innan við tíu prósent telja áhrifahópa í samfélaginu, eins og stjórnmálamenn, hagsmunahópa eða fólk í viðskiptalífi hafa mikil eða töluverð áhrif á starf sitt. Hins vegar eru fleiri blaða- og fréttamenn á þeirri skoðun nú en árið 2012 að eigendur, stjórnendur og ritstjórar eða fréttastjórar hafi töluverð eða mikil áhrif á störf þeirra. Yfirgnæfandi meirihluti eða 70% er enn fremur mjög eða frekar hlynntur því því að einkareknir fréttamiðlar séu styrktir fyrir almannafé.
Á málinginu benti Valgerður á að almennt mætti draga þá ályktun af þessum fyrstu niðurstöðum að fagvitund blaða- og fréttamanna væri mjög sterk og útbreiddur sameiginlegur skilningur í stéttinni á stöðu sinni, sem væri að fylgjast með stjórnvöldum, upplýsa og greina og veita aðhald, en að faglegt sjálfstæði væri undir umtalsverðum þrýstingi.
Hægt er að kynna sér dagskrá Blaðamannadagsins á vef Blaðamannafélags Íslands og kynna sér blaða- og fréttamennsku á opnum degi í Háskóla Íslands en umsóknarfrestur um meistaranám er 15. apríl og diplómanám 5. júní.