Lára leiðir Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála tímabundið
Lára Hrönn Hlynsdóttir tók um mánaðamótin við sem starfandi forstöðumaður við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í fjarveru Gústafs Adolfs Skúlasonar sem sinnir tímabundnu verkefni á vegum Menntamálastofnunar.
Lára er vel kunnug stofnuninni en hún hefur starfað þar frá árinu 2017 sem verkefnastjóri og á þeim tíma komið að skipulagi fjölmargra viðburða, námskeiða og rannsóknarverkefna á vegum stofnunarinnar.
„Það eru mörg spennandi verkefni á döfinni og meðal annars erum við í viðræðum um að halda stóra alþjóðlega ráðstefnu um borgarskipulag á næsta ári. Þannig að það er nóg um að vera hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.“
Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun sem heyrir undir Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Stofnunin starfar náið með stofnunum og félagasamtökum, innlendum sem erlendum eftir því sem tilefni gefast, m.a. með forsætisráðuneytinu og Reykjavíkurborg á grundvelli þjónustusamninga.
Meðal þess sem fram undan er hjá stofnuninni má nefna ýmis námskeið fyrir starfsfólk í stjórnsýslu, þar á meðal hið árlega 6 vikna námskeið í stjórnsýslurétti sem hefst 15. febrúar næstkomandi, útgáfu tímaritanna Stjórnmál & stjórnsýsla og Tímarits um viðskipti og efnahagsmál, málþing í maí vegna loka rannsóknarverkefnis um lögmæti auk fjölda viðburða sem tengjast málefnum stjórnmála og stjórnsýslu.