Skip to main content
2. desember 2021

Verðlaunaritgerð með sjálfbærni að leiðarljósi

Verðlaunaritgerð með sjálfbærni að leiðarljósi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands leggur áherslu á að nám og rannsóknir mæti þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og stuðli að sjálfbærum heimi. Við skólann er meistaranám í verkefnastjórnun sem hefur einmitt að markmiði að svara kalli atvinnulífsins um vel menntað fólk með sérhæfða þekkingu til að stýra flóknum og umfangsmiklum verkefnum. Við glímum alls staðar við verkefni, í hversdagslífinu, í námi og áhugamálum og auðvitað í ríkum mæli í atvinnulífinu. Það er vissulega misjafnt hvernig haldið er á spilum en eftir því sem verkefni verða stærri og flóknari – því brýnna er að hafa augun á öllum ferlum, hverju smáatriði til að tryggja framgang þeirra, sjálfbærni, hagkvæmni og að tími og kostnaður standist. Hér er fátt eitt talið.  

Verkefnastjórnunarfélag Íslands veitir árvissa viðurkenningu fyrir bestu meistararitgerðina á sviði verkefnastjórnunar en félagið hefur það að markmiði að leiða þróun og eflingu verkefnastjórnunar hérlendis. Að þessu sinni varð meistararitgerð doktorsnemans Ingibjargar Karlsdóttur við HÍ hlutskörpust en hún ber heitið „Samvinnusköpun verkefna í íslenskum sjávarútvegi: Þátttaka hagsmunaaðila og samþætting sjálfbærrar þróunar.“

„Viðurkenningin skiptir mig mjög miklu máli þar sem hún hvetur mig til að halda áfram á þeirri braut sem ég hef nú þegar markað mér í doktorsnáminu mínu. Einnig þykir mér rosalega vænt um að tekið sé eftir rannsóknum á sviði verkefnastjórnunar hér heima enda er hún mikilvæg og sívaxandi þáttur í öllu atvinnulífinu,“ segir verðlaunahafinn Ingibjörg sem segist hafa skoðað verkefni í íslenskum sjávarútvegi og í stuðningsgreinum í verðlaunaritgerðinni sinni út frá aðferðafræði verkefnastjórnunar. 

„Ég skoðaði hvernig verkefni skapa sameiginlegan ávinning fyrir alla hagsmunaaðila í greininni og lýsi upp þá þætti þeirra sem styðja við sjálfbæra þróun í íslenskum sjávarútvegi.“

Ingibjörg segir að í námsleiðinni í verkefnastjórnun í HÍ sé boðið upp á ýmis spennandi valfög og hún hafi sótt eitt slíkt með rekstur í sjávarútvegi í háskerpu sem hafi vakið hjá henni mikla forvitni.

„Ég hef í raun engan sérstakan bakgrunn í sjávarútvegsfræðum en mig langaði að breikka þekkingarsviðið. Ég sá þarna tækifæri til að bæta við mig þekkingu auk þess að hagnýta mér þá sem ég hafði þegar aflað mér í verkefnastjórnunarnáminu í heild og greina málefni sjálfbærrar þróunar í íslenskum sjávarútvegi.“

Leiðbeinendur Ingibjargar í verðlaunaverkefninu voru þau Inga Minelgaité, prófessor í viðskiptafræði, og David Cook, nýdoktor í umhverfis- og auðlindafræði, bæði við Háskóla Íslands, en þau studdu hana einnig við að móta rannsóknaráætlunina í ritgerðinni.

Umhverfisleg, efnahagsleg og  félagsleg sjálfbærni

Í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er sjálfbærni í algjöru lykilhlutverki og í nýrri stefnu Háskóla Íslands eru mikill þungi á heimsmarkmiðin þar sem sjálfbærni er lögð til grundvallar í allri starfsemi skólans. Hvernig tekst verkefnastjórnun á við þetta flókna samspil sjálfbærni og vinnslu verkefna?

„Það er tilhneiging til að einblína á umhverfismál þegar kemur að sjálfbærni, sem er afar mikilvægt auðvitað þegar horft er á heildarmyndina,“ segir leiðbeinandinn Inga Minelgaité sem er sérfræðingur á þessu sviði. „En við leggjum líka áherslu á efnahagslega sjálfbærni og félagslega sjálfbærni í náminu, sem minna er talað um, en við teljum félagslega sjálfbærni afar mikilvæga fyrir framtíðina. Félagsleg sjálfbærni á sér stað þegar ferli, kerfi, skipulag og sambönd, styðja á virkan hátt við getu núverandi og komandi kynslóða til að skapa heilbrigt og lífvænlegt samfélag.“ 

Inga segir að með því að stjórna ferlum innan verkefna og styðjast við þekktar aðferðir sé hægt að minnka sóun á aðföngum ásamt því að nýta auðlindir á sem ábyrgastan og skilvirkastan hátt með nútíma og framtíð að leiðarljósi. 

„Við viljum að nemendur hugi að sjálfbærni strax á stefnumótunarstigi í framkvæmd verkefna með því að nálgast allar þrjár stoðir sjálfbærninnar, þ.e. umhverfislega, efnahagslega og félagslega. Ég tek eftir auknum áhuga á sjálfbærri forystu og sjálfbærni í verkefnastjórnun í atvinnulífinu, sem endurspeglast einnig í þeim meistararitgerðum sem ég hef umsjón með. Það er frábært að sjá nemendur horfa til framtíðarinnar sem virkir þátttakendur í mótun hennar, þar sem þeir leggja sitt af mörkum til sjálfbærni með skilvirkri stjórn verkefna.“

„Eftir að hafa stundað meistaranám í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands,“ segir Ingibjörg, „sá ég hvernig verkefnastjórnun styður einmitt við sjálfbæra þróun. Í ritgerðinni langaði mig að skoða hvernig sjálfbærni er samþætt inn í íslenskan sjávarútveg þar sem sjávarútvegur hefur verið ein mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi í áranna rás. Greinin hefur einnig skapað mörg störf í tæknigeiranum þar sem mikið er stuðst við verkefnastjórnun.“ Ingibjörg er hér með leiðbeinanda sínum, Ingu Minelgaité, prófessor í viðskiptafræði. MYND/Kristinn Ingvarsson

Sjálfbærni innleidd í öll námskeið í verkefnisstjórnun

Inga segir að verkefni Ingibjargar sé mjög praktískt eins og allt námið í verkefnisstjórnun enda sé atvinnulífið sífellt að þróast í verkefnamiðaða átt þar sem starfsemi fyrirtækja og stofnana fari æ meira fram í formi afmarkaðra verkefna. „Verkefnastjórnun snýst um getu til að klára verkefni á réttum tíma, innan fjárhagsáætlunar og með ætluðum gæðum. Með því að stjórna tilteknu verkefni er hægt að læra ansi hratt af reynslunni. Hins vegar leggjum við í náminu áherslu á að kynna nemendum tæki til að stjórna mörgum verkefnum samtímis. Hér erum við að tala um verkefnaáætlanir, verkefnasöfn og skipulag sem er hvað mest stefnumarkandi á stigi verkefnastjórnunar,“ segir Inga sem hefur sérhæft sig í leiðtogahæfni og forystu, ekki síst kvenna í viðskiptum.

Inga segir að í rannsókn Ingibjargar sé sjónum beint að hinu mikilvæga viðfangsefni sjálfbærni í sjávarútvegi en sjálfbærni sé það brýnt viðfangsefni að hún hafi nú þegar verið innleidd í öll þau námskeið sem kennd eru í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands. 

„Eftir að hafa stundað meistaranám í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands,“ segir Ingibjörg, „sá ég hvernig verkefnastjórnun styður einmitt við sjálfbæra þróun. Í ritgerðinni langaði mig að skoða hvernig sjálfbærni er samþætt inn í íslenskan sjávarútveg þar sem sjávarútvegur hefur verið ein mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi í áranna rás. Greinin hefur einnig skapað mörg störf í tæknigeiranum þar sem mikið er stuðst við verkefnastjórnun. Það sem verkefnastjórnun skoðar m.a. er stjórnun hagsmunaaðila í atvinnugreinum og mig langaði að fá betri sýn á hvernig það er gert.“

Ingibjörg segist hafa tekið hálfstöðluð viðtöl við sérfræðinga á ólíkum sviðum innan fyrirtækja sem sérhæfa sig í veiðum og vinnslu, einnig í tæknigeiranum auk sérfræðinga í sjálfbærnivottunum á sjávarafurðum. „Niðurstöður úr þeim viðtölum eru m.a. þær að samskipti við hagsmunaaðila eru mikilvæg fyrir góðan grunn að árangursríku verkefni í atvinnugreininni. Rannsóknin sýnir einnig fram á mikilvægi þess að fá fólk til að vinna saman í verkefnum því þannig skapast mest verðmæti fyrir hagsmunaaðila auk ávinningsins sem kemur fram í lok verkefnisins. Þrátt fyrir það er minni áhersla lögð á félagslega sjálfbærni í sjávarútvegi,“ segir Ingibjörg.

Þegar kemur að því að skoða fjárhagslegan ávinning stendur ekki á svari hjá Ingibjörgu því ávinningur hagsmunaaðila eykst, að hennar sögn, eftir því sem fiskvinnslufyrirtækin stýra verkefnum betur og vinna afurðir á skilvirkari hátt, þannig auka þau framleiðni og skapa samkeppnisforskot á markaði. „Niðurstöður rannsóknarinnar geta hjálpað verkefnastjórum að skilgreina þrjár stoðir sjálfbærni í verkefnum innan sjávarútvegsins. Rannsóknin kemur líka inn á mikilvægi þess að skilgreina hagsmunaaðila í upphafi verkefnis.“  

Öflug tengsl við atvinnulíf

Inga segir að í náminu sé stöðugt leitað leiða til að tengjast betur atvinnulífi og tryggja að námið skili öflugu fólki út í fyrirtækin sem breyti þeim til hins betra.  „Nýjasta námskeiðið okkar hér,“ segir Inga, „heitir verkefnavæðing og sjálfbær stjórnun verkefna. Þetta er mjög sérstakt námskeið þar sem áhersla á atvinnulífstengsl er gríðarleg, ekki bara við fyrirtæki hér heima heldur einnig erlendis. Í því fá nemendur að ferðast til útlanda, kynnast þar fyrirtækjum og kljást við raunhæf dæmi í verkefnastjórnun.

Aðspurð um helstu áherslur námsins þá svarar Inga því til að þær séu þríþættar. „Nemendur eins og Ingibjörg fá innsýn í grunn verkefnastjórnunar en um leið einbeitum við okkur að þeim þáttum verkefnastjórnunar sem hjálpa nemendum að skilja það sem við köllum stefnumótandi sýn. Þannig skoðum við hvernig hægt er að nota verkefni og verkefnahópa við innleiðingu nýrrar stefnu. Í náminu skoðum við skipulag og þær ólíku leiðir sem fara má við stjórn verkefna sem hreinlega geta skapað stefnumótandi samkeppnisforskot fyrirtækja. Í náminu leggjum við líka mikla áherslu á framtíðina. Við höfum augun á hlutum sem hafa nú þegar breytt vinnsluhraða verkefna almennt séð og munu gera það enn frekar í nánustu framtíð. Hér á ég t.d. við framsetningu verkefna, hvernig tekist er á við flækjustig þeirra.“

Að lokinni meistaragráðu frá Háskóla Íslands er Ingibjörg nú á kafi í doktorsnámi við skólann sem snýst um fátt annað en rannsóknir. Þegar vikið er að mikilvægi rannsókna svarar hún því til að þær varpi ljósi á hvar við höfum verið, hvar við erum og í hvaða átt við förum. „Það er hægt að horfa á rannsóknir sem mælikvarða á framfarir og auka við þá þekkingu sem er nú þegar til staðar. Það sem meira er, þá tel ég það mikilvægt að efla samstarf fræðasamfélagsins og atvinnulífsins með rannsóknum.“ 

--

Karlsdóttir, I., Cook, D., Minelgaite, I. (2021). Efficiency management in catch handling onboard small boats – Standardisation of processes in Icelandic fisheries. Sustainable Futures, Vol.3. https://doi.org/10.1016/j.sftr.2021.100060 

Karlsdóttir,I., Cook, D., Minelgaite, I. (2021). Project Benefit Co-Creation in The Icelandic Fisheries Sector with Stakeholder Involvement And Integration Of Sustainable Development. Journal of International Doctoral Research, Vol.8 (1), p. 27-96