Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir ráðin forstöðumaður Viðskiptafræðistofnunar
Þann 1. desember næstkomandi mun Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir hefja störf sem forstöðumaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Viðskiptafræðistofnun er fræðslu- og rannsóknastofnun sem er starfrækt í umboði Viðskiptafræðideildar og annast skipulagningu, kennslu og mat á gæðum MBA-námsins við Háskóla Íslands.
„Það er mjög verðmætt fyrir stofnunina að fá inn öflugan stjórnanda með víðtæka þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu, bæði hér heima og erlendis, til þess að leiða það góða starf sem er unnið við stofnunina. Við bjóðum Kristbjörgu Eddu velkomna til starfa á nýjum vettvangi,“ segir Ásta Dís Óladóttir, stjórnarformaður Viðskiptafræðistofnunar.
Undanfarin fjögur ár hefur Kristbjörg Edda starfað sem framkvæmdastjóri Selvíkur ehf. á Siglufirði sem rekur meðal annars Sigló Hótel, Sigló Golf og Rauðku. Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu og var áður forstjóri Kaffitárs ehf. og hugbúnaðarfyrirtækisins Men & Mice ehf., forstöðumaður markaðssviðs Símans og forstöðumaður hjá Glitni banka. Þá gegndi hún ýmsum stjórnunarstörfum hjá Össuri ehf. á 11 ára tímabili, m.a. stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs fyrir Evrópu og framkvæmdastjóra vörustjórnunar.
Kristbjörg Edda hefur einnig sinnt ráðgjöf og kennslu á sviði vörustjórnunar og nýsköpunar. Á starfsferli sínum hefur hún búið í Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Kristbjörg Edda er hag- og viðskiptafræðingur að mennt og er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum í Árósum og Háskóla Íslands.
„Ég er full tilhlökkunar og spennt að fá tækifæri til starfa með þeim góða hópi fólks sem kemur að Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands. Tækifærin eru ótalmörg en mikilvægast er þó að geta lagt mitt af mörkum til að Háskóli Íslands geti sinnt hlutverki sínu og staðið undir þeim væntingum sem nemendur, starfsfólk og samfélagið gerir til hans,“ segir Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, nýr forstöðumaður Viðskiptafræðistofnunar.