Alls staðar grímuskylda ef ekki er hægt að uppfylla 1 M reglu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (15. nóvember):
„Heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis ákveðið að herða til muna sóttvarnaaðgerðir til að sporna við hraðri útbreiðslu COVID-19. Þetta hefur talsverð áhrif á starfið í Háskóla Íslands en aðgerðirnar tóku gildi þann 13. nóvember.
Reglurnar hafa eftirfarandi í för með sér fyrir nemendur og starfsfólk HÍ:
- Almennar fjöldatakmarkanir eru 50 manns. Í þessu felst að óheimilt er að fleiri en 50 komi saman, hvort heldur í byggingum HÍ eða utandyra.
- Nándarmörk eru 1 metri. Íþróttir með snertingu eru áfram heimilar.
- Skylt er að nota grímu sé ekki hægt að virða 1 metra regluna. Þetta gildir líka þegar sest er niður í kennslustofum.
- Blöndun milli hópa í skólastarfi innan HÍ er heimil eins og á öllum öðrum skólastigum.
Hér má finna nánari upplýsingar um nýjar sóttvarnareglur.
Öll eru hvött til að fylgja þessum reglum í hvívetna til að draga úr útbreiðslu veirunnar og hlaða niður smitrakningarappi Landlæknis. Einnig eru nemendur og kennarar hvattir til að nýta QR-kóða kerfið sem nú er í notkun innan skólans, en það gerir fólki kleift að skrá sig í kennslustund með QR-kóða sem er að finna á öllum borðum í kennslustofum. Með skráningu er hægt að tryggja lágmarksröskun í starfi HÍ, komi upp COVID-smit í kennslu, og beita skjótvirkri smitrakningu.
Mjög áríðandi er að vernda þann mikilvæga árangur sem náðst hefur í Háskóla Íslands í baráttunni við veirufaraldurinn undanfarið og það verður eins og dæmin sanna best gert með einstaklingsbundnum sóttvörnum. Mjög brýnt er að þvo hendur, spritta og nota grímu. Ágætt er að venja sig á að nota grímur innanhúss þegar ferðast er um byggingar Háskólans.
Ef vart verður minnstu einkenna er mjög áríðandi að mæta ekki á háskólasvæðið og fara strax í sýnatöku. Mjög gagnlegar og ítarlegar upplýsingar er að finna á COVID-síðum Háskóla Íslands og á covid.is.“