HÍ styður við kynjajafnréttisstarf í Coimbra-háskóla í Portúgal
Fulltrúar frá Háskóla Íslands heimsóttu Háskólann í Coimbra í Portúgal 9.-10. september og tóku þátt í ráðstefnu á vegum Gender@UC verkefnisins. Ferðin er hluti af samstarfi skólanna á sviði kynjajafnréttis sem fjármagnað er af uppbyggingarsjóði EES, en sjóðurinn hefur það að markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Háskólinn í Coimbra hefur samþykkt sína fyrstu jafnréttisáætlun. Innan háskólans er lögð mikil áhersla á að styrkja kynjajafnrétti, og ekki síst aðkomu og framgang kvenna í vísindum. Liður í þessu starfi var ráðstefnan Gender@UC sem haldin var í samvinnu við stjórnvöld í Portúgal, rannsóknasjóði og rannsóknarstofnanir. Þessi víðtæka þátttaka undirstrikar mikilvægi málaflokksins í Háskólanum í Coimbra.
„Hlutverk Háskóla Íslands er að styðja við þetta starf, m.a. með ráðgjöf við innleiðingu jafnréttisstefnunnar. Samstarfið stendur yfir til ársloka 2023 og koma fulltrúar frá Portúgal til Íslands á næsta ári til að kynna sér jafnréttisstarf við Háskóla Íslands,“ segir Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, sem leiðir verkefnið fyrir hönd HÍ. Ásamt henni sóttu ráðstefnuna þau Finnborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor og sérfræðingur í kynjuðum fjármálum, og Arnar Gíslason, annar jafnréttisfulltrúa HÍ.