Horft í stöðu húsnæðislausra í sumarnámi HÍ
Á þriðja þúsund nemendur sóttu sumarnámskeið sem Háskóli Íslands bauð upp á til þess að bregðast við áhrifum kórónaveirufaraldursins og sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun. Í boði voru um 120 námskeið á öllum fræðasviðum skólans, þar á meðal námskeið um málefni húsnæðislausra og skaðaminnkun en sá málaflokkur hefur fengið aukna athygli undanfarið. Við ræddum við Selmu Björk Hauksdóttur, kennara í námskeiðinu, sem vinnur að doktorsrannsókn tengdri efninu og Hildi Maríu Brynjólfsdóttur, nemanda í félagsráðgjöf, um námskeiðið en reynsla hennar var meðal þess sem vakti áhuga hennar á því.
Námskeiðið bar heitið „Málefni húsnæðislausra: staða hér á landi, þjónusta og þekking“ og var á vegum Félagsráðgjafardeildar. Markmið þess var að veita nemendum innsýn í stöðu þeirra sem ekki hafa þak yfir höfuðið og hugmyndafræðina „húsnæði fyrst“ auk þess sem fjallað var um hugmyndafræði skaðaminnkunar og hvernig unnið er eftir henni hérlendis.
„Ég er í doktorsnámi við Félagsráðgjafardeild og viðfangsefni mitt er húsnæðisleysi og hugmyndafræði húsnæði fyrst. Málefnið snertir flesta fleti félagsráðgjafar og því mikilvægt að draga þetta fram og vekja athygli á málaflokknum og hvernig er unnið að honum hér á landi,“ segir Selma Björk Hauksdóttir, einn af kennurunum í námskeiðinu, um tilurð þess. Auk hennar komu
Svala Jóhannesardóttir, forstöðukona, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, að kennslunni en Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild, var umsjónarkennari námskeiðsins.
Húsnæði fyrst skilyrðir húsnæði ekki við þjónustu
Að sögn Selmu snýst hugmyndafræðin um húsnæði fyrst um að veita einstaklingum, sem eiga ekki hússkjól og glíma oft við ýmsa erfiðleika, húsnæði til þess að styðja þá við að takast á við vanda sinn.
„Í húsnæði fyrst er unnið út frá hugmynd um þarfapýramída um að húsnæði sé grunnur að því að manneskjur upplifi öryggi. Ef grunnþörfum er ekki fullnægt er erfitt að skipuleggja og hafa stjórn á daglegu lífi. Samkvæmt hugmyndafræðinni er húsnæði ekki skilyrt við þjónustu og því ekki hætta á að einstaklingur missi húsnæðið ef hann sinnir ekki ákveðnum þáttum. Þjónustuteymi veita einstaklingsmiðaða þjónustu eins lengi og þörf krefur og þjónustan er aðlöguð að ólíkum aðstæðum hverju sinni,“ segir Selma.
Aðspurð segir Selma ekki liggja fyrir nákvæmlega hversu margir séu húsnæðislausir hér á landi núna en í skýrslu sem unnin var árið 2017 hafi fjöldinn verið um 350. „Ákveðinn hópur er alltaf nokkuð falinn og því erfitt að segja nákvæmlega hver stór hópurinn er í dag,“ bendir hún á.
Skaðaminnkun snýst um þjónustu á forsendum notenda
Nátengd hugmyndafræðinni húsnæði fyrst er hugmyndafræði um svokallaða skaðaminnkun sem snýst um að reyna með heildrænum hætti að draga úr hættulegum og neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum vímuefnanotkunar hjá notendum, fjölskyldum þeirra, nærsamfélögum og samfélaginu í heild. „Með því að vinna eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði er notendum mætt þar sem þeir eru staddir hverju sinni og á forsendum þeirra auk þess sem öll lítil skref í átt að jákvæðum breytingum eru styrkt. Með þessu opnast á tækifæri til stuðnings og þjónustu fyrir hóp fólks sem hefðbundin bindindisnálgun nær ekki til,“ útskýrir Selma.
Hún bendir á að unnið sé út frá þessari hugmyndafræði bæði hjá Frú Ragnheiði, verkefni Rauða krossins, og hjá Konukoti sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur. „Það eru auk þess ýmsir aðrir aðilar sem þjónusta notendur sem leiðir til skaðaminnkunar.“
„Í dag eru flestir sem nýta þjónustu hjá Reykjavíkurborg en sama skylda er á öllum sveitarfélögum. Jafnframt væri æskilegt að innleiða skaðaminnkun í stefnumótun hjá hinu opinbera þar sem tekið er mið að nálgun ólíkra stofnana og úrræða. Samhliða er mikilvægt að kynna og fræða vel starfsfólk sem almenning um út á hvað skaðaminnkun gengur því mikið er um misskilning í umræðunni,“ segir Selma Björk Hauksdóttir sem er hér ásamt Hildi Maríu Brynjólfsdóttur. MYND/Kristinn Ingvarsson
Afar erfitt að vera aðstandandi fólks á götunni
Óhætt er að segja að námskeiðið hafi dregið að sér fjölbreyttan hóp háskólanema því meðal þeirra tæplega 30 sem sátu það í sumar voru nemendur úr félagsráðgjöf, félagsfræði, hjúkrun, læknisfræði, mannfræði, sálfræði og stjórnmálafræði. „Auk þess voru nokkur eingöngu skráð í sumarnám,“ bætir Selma við.
Meðal þeirra sem sóttu námskeiðið var félagsráðgjafarneminn Hildur María Brynjólfsdóttir. Aðspurð segir hún reyslu úr eigin fjölskyldu m.a. hafa kveikt áhugann. „Fyrir nokkrum árum átti ég mjög náinn fjölskyldumeðlim sem missti tökin á sínu lífi og endaði með að búa á götunni í nokkur ár. Að vera aðstandandi einstaklings sem býr á götunni er ofboðslega erfitt og eftir þessa reynslu hefur þessi málaflokkur verið mér mjög hugleikinn. Þegar ég sá þetta námskeið auglýst var ég ákveðin í að fara í það því ég vildi nýta þessa reynslu mína til að hjálpa öðrum. Eins erfitt og það er að vera í þessum sporum þá er þetta líka gríðarlegur lærdómur í leiðinni sem ég mun búa að alla ævi,“ segir hún.
Hildur segir námskeiðið hafa í senn verið ótrúlega fræðandi og áhugavert. „Við fengum innsýn í stöðu þeirra sem glíma við húsnæðisleysi og hvaða úrræði eru í boði hér á landi fyrir þessa einstaklinga. Við fórum einnig að skoða gistiskýlið og Konukot og kynntum okkur starfið þar,“ segir Hildur.
Sjálf hefur hún unnið sem sjálfboðaliði í Konukoti frá því í vor. „Mér finnst yndislegt að geta verið til staðar þar fyrir þær sem það þurfa,“ segir hún og aðspurð segist hún vel geta séð fyrir sér að vinna í þessum málaflokki í framtíðinni. „Ég hef líka mikinn áhuga á því að skoða það hvað við sem samfélag getum gert til að koma í veg fyrir að fólk endi á götunni, hvernig við getum gripið fyrr inn í.“
Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman í málaflokknum
Aðspurð segist Hildur taka mikinn lærdóm með sér úr námskeiðinu. „Það var áhugavert að skoða stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra og að skoða hvað önnur lönd sem hafa náð árangri í þessum málaflokki eru að gera, eins og Finnland og Kanada,“ segir Hildur en sem stendur er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem hefur formlega innleitt hugmyndafræðina.
Selma bætir við að þörf sé á aðkomu ríkisins að málaflokknum og hann þurfi að vera unninn í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. „Í dag eru flestir sem nýta þjónustu hjá Reykjavíkurborg en sama skylda er á öllum sveitarfélögum. Jafnframt væri æskilegt að innleiða skaðaminnkun í stefnumótun hjá hinu opinbera þar sem tekið er mið að nálgun ólíkra stofnana og úrræða. Samhliða er mikilvægt að kynna og fræða vel starfsfólk sem almenning um út á hvað skaðaminnkun gengur því mikið er um misskilning í umræðunni,“ segir hún.