Breytingar á sóttvarnareglum
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (10. maí):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Í dag urðu þær tilslakanir í starfi Háskóla Íslands að blöndun nemenda milli hólfa er nú leyfð og gilda nýjar reglur til og með 26. maí. Einnig verða viðburðir nú heimilir innan skólans fyrir utanaðkomandi gesti með þeim takmörkunum sem almennt gilda um skólastarfið. Eftirfarandi reglur eru nú í gildi:
- Starf í Háskóla Íslands er heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra sín á milli og að fjöldi fari ekki yfir 100 í hverju kennslu- eða lesrými.
- Í sameiginlegum rýmum, t.d. við innganga, á salernum og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkum og reglu um blöndun hópa að því gefnu að andlitsgrímur séu notaðar.
- Blöndun nemenda á milli hópa er heimil.
- Í verklegri kennslu og klínísku námi, þar sem ekki er unnt að framfylgja nándarmörkum, verða nemendur og kennarar að nota andlitsgrímur.
- Aðrir viðburðir sem ekki teljast til náms og kennslu eru heimilir í byggingum Háskólans með ofangreindum takmörkunum.
- Háskóli Íslands mun tryggja góða loftun og að sameiginlegir snertifletir í kennslustofum verði sótthreinsaðir milli hópa.
- Sameiginlegur búnaður og snertifletir verða sótthreinsaðir a.m.k. daglega.
Þessar nýju tilslakanir gefa sannarlega fyrirheit um betri tíð í baráttunni við COVID-19 en það er afar mikilvægt að huga áfram vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Árangurinn byggist á samstöðu okkar allra.
Gangi ykkur vel í vikunni fram undan, kæru nemendur og samstarfsfólk, ekki síst ykkur sem eruð í prófum sem nú fara fram við flóknar aðstæður. Þið eigið öll mikið lof skilið fyrir seiglu og sveigjanleika sem hafa tryggt afar mikilvægt starf Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor“