Skip to main content

Skyndikynni af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands

Skyndikynni af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. maí 2021 12:00 til 13:00
Hvar 

Á netinu

Nánar 
Á netinu

Fulltrúar sprotafyrirtækjanna Akthelia Pharmaceuticals, Atmonia, Grein Research og Oculis, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í stuttum erindum í Hátíðasal skólans fimmtudaginn 27. maí kl. 12-13. Viðburðinum verður streymt á vef og samfélagsmiðlum Háskóla Íslands í ljósi samfélagsaðstæðna. Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni dagana 26. maí - 2. júní.

Streymi frá viðburðinum

Sprotafyrirtækið Akthelia var stofnað árið 2002 af Guðmundi Hrafni Guðmundssyni, prófessor í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, Eiríki Steingrímssyni, prófessor í lífefnafræði við Læknadeild, ásamt tveimur prófessorum frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Rannsóknirnar hópsins snúa að bakteríudrepandi peptíðum, sem eru lítil prótín sem eru í öllu yfirborði mannslíkamans og eru fyrsta vörn líkamans gegn bakteríusýkingum. Fyrirtækið vinnur að þróun lyfja sem magnar þessar náttúrlegu ónæmisvarnir líkamans til að sigrast á sýkingum. Í erindinu mun Egill Másson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fara yfir sögu verkefnisins og setja í samhengi við nýsköpun á Íslandi.

Fyrirtækið Atmonia ehf. rekur uppruna sinn til rannsókna Egils Skúlasonar, prófessors í efnaverkfræði, en var stofnað í framhaldi af samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Atmonia notast við rafefnafræði til að knýja framleiðslu ammóníaks með notkun raforku við herbergishita og -þrýsting. Með aðferðum Atmonia gætu bændur framleitt eigin áburð á staðnum. Það eina sem þarf til framleiðslunnar er rafmagn, vatn og andrúmsloft sem er 78% nitur og því verður engin losun á koltvísýringi í framleiðslunni. Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, mun í erindi sínu ræða sögu Atmonia og þróun fyrirtækisins frá hugmynd í djúptækni að viðskiptamódeli.

Grein Research sinnir þróunarverkefnum og þjónusturannsóknum innan efnistækni á ýmsum sviðum. Fyrirtækið stofnuðu fjórir fyrrverandi nemendur Háskóla Íslands árið 2016 með það að markmiði að brúa bilið milli þeirrar þekkingar og tækni sem hefur skapast í efnistækni við Háskóla Íslands og iðnaðar bæði hér og erlendis. Verkefni fyrirtækisins eru af ýmsum toga en hafa það öll sameiginlegt að reiða sig á efnisþróun og mælingar á efniseiginleikum yfirborðshúða og fastra efna. Þau spanna vítt notkunarsvið, allt frá þróun á efnum fyrir hitaskipta í jarðhitaiðnaði að efnisþróun í gleriðnaði og til efnahvötunar. Árni Sigurður Ingason, framkvæmdastjóri Grein Research, mun fjalla í stuttu máli um nokkur verkefni fyrirtækisins og framtíðarhorfur þess.

Oculis á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítala, en félagið stofnuðu Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, og Þorsteinn Loftsson, prófessor í lyfjafræði. Oculis hefur þróað einkaleyfisvarða tækni sem gerir m.a. mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum í stað augnástunga. Íslenskir fjárfestar og alþjóðlegir vaxtarsjóðir hafa fjárfest í félaginu fyrir yfir sex milljarða króna á undanförnum árum og í erindinu mun Einar Stefánsson fara yfir þróun félagsins og fjármögnunarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja.

Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni, nýrri hátíð í Reykjavík sem fer fram dagana 26. maí -2. júní. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. Nánar á nyskopunarvikan.is

Fulltrúar sprotafyrirtækjanna Akthelia Pharmaceuticals, Atmonia, Grein Research og Oculis, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í stuttum erindum í Hátíðasal skólans fimmtudaginn 27. maí kl. 12-13.

Skyndikynni af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands