Bestu viðskiptahugmyndirnar verðlaunaðar
Tvær viðskiptaáætlanir sem nemendur unnu í samnefndu námskeiði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hlutu veglegar viðurkenningar á sérstakri verðlaunaathöfn í Grósku – hugmyndahúsi í gær. Áætlanirnar snúast um fyrstu íslensku mjólkurlausu vörulínuna úr höfrum og þróun sérmerktra líkkista fyrir gæludýr.
Í viðskiptafræði við Háskóla Íslands geta nemendur valið á milli sérsviðanna fjármála, markaðsmála, reikningshalds og stjórnunar. Þau nýtast öll þegar kemur að því að vinna stórt verkefni eins og viðskiptaáætlun. Að því hafa nemendur sem sækja í námskeiðið Viðskiptaáætlanir komist en það var endurvakið nú á vormisseri eftir 15 ára hlé og er í umsjón Ástu Dísar Óladóttur, dósents í Viðskiptafræðideild.
Í námskeiðinu var nemendahópnum skipt í 4-5 manna hópa og lögðu þeir mikið á sig við að vinna viðskiptaáætlun utan um hugmyndir sínar. Námskeiðið var í samvinnu við Vísindagarða Háskólans og Íslandsbanka sem veittu verðlaun fyrir tvær bestu hugmyndirnar.
Alls urðu ellefu viðskiptaáætlanir til í námskeiðinu og það var í höndum sérstakrar dómnefndar að velja bestu viðskiptahugmyndina. Í henni sátu auk Ástu Dísar þau Karl Sólnes Jónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka, Elísabet Sveinsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, og Atli Þór Sigurjónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka.
Fyrstu verðlaun að upphæð 200 þúsund krónur hlaut hugmyndin Alma en að henni standa Aníta Þórunn Þráinsdóttir, nýútskrifaður matvælafræðingur, og viðskiptafræðinemarnir Auður Ólafsdóttir, Gabriele Cibulskaite og Gunnhildur Ólöf Jóhannsdóttir. Alma stefnir að því að setja á markað fyrstu íslensku haframjólkurlínuna. Nýsköpun og sjálfbærni mun einkenna vörumerkið og verður fljótlega sett af stað mikil vöruþróun á mjólkurlausum hafravörum, s.s. ís, ostum, mjólk, rjóma og skyri. „Gildi Ölmu felast í því að koma með á markað hreina og heilnæma vörulínu sem leggur sitt af mörkum í umhverfismálum og styður við nýjar og breyttar þarfir neytenda,“ segir í kynningu á viðskiptahugmyndinni.
„Við munum sífellt aðlaga reksturinn okkar að þeim aðstæðum og umhverfi sem fyrirtækið býr við. Alma mun fylgjast vel með breytingum á þörfum viðskiptavina, tískubylgjum og einnig aðgerðum samkeppnisaðila,“ segja þær stöllur enn fremur um áframhaldandi þróun verkefnsins.
Önnur verðlaun að upphæð 100 þúsund krónur hlaut hugmyndin Regnbogabrúin. Að henni standa viðskiptafræðinemarnir Anna Sigfríð Garðarsdóttir Blomsterberg, Elín Sif Steinarsdóttir Röver, María Arnarsdóttir, Pétur Þór Sævarsson og Silja Ástudóttir. Fyrirtækið býður upp sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr en stofnendur höfðu tekið eftir því að vöru sem þessa vantaði á markaðinn. Markaðskönnun leiddi hið sama í ljós og því kom hópurinn auga á tækifæri á einfaldri, ódýrri en faglegri þjónustu fyrir gæludýraeigendur. Megintilgangur fyrirtækisins er að smíða, sérmerkja og selja líkkistur fyrir gæludýr, ketti og smáa hunda. „Talað er um að þegar dýr deyja þá fari þau yfir regnbogabrúna. Stofnendum fannst nafnið því passa vel við rekstur og tilgang fyrirtækisins sem er sá að gæludýraeigendur geti kvatt gæludýrin sín á fallegan hátt,“ segir m.a. í kynningu á verkefninu.
„Við erum þakklát fyrir að fá þessi verðlaun. Þau eru ákveðin staðfesting á því að við séum með góða hugmynd í höndunum og munum við skoða í framhaldi hvort við förum lengra með verkefnið,“ segja aðstandendur þess.