Skip to main content
15. febrúar 2021

Aurora-bandalagið fær veglegan styrk til að efla rannsóknir og nýsköpun 

Aurora-bandalagið fær veglegan styrk til að efla rannsóknir og nýsköpun  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aurora-bandalagið, sem Háskóli Íslands er hluti af, hefur hlotið tveggja milljóna evra styrk, jafnvirði rúmlega 300 milljóna króna, frá Horizon 2020 - Science with and for Society (SwafS) áætluninni til að styðja við rannsóknir og nýsköpun innan bandalagsins. Háskóli Íslands bar ábyrgð á umsóknarferlinu og kemur til með að leiða verkefnið. 

Styrkurinn gerir Háskóla Íslands kleift að móta og innleiða sameiginlega áætlun um aukinn stuðning við rannsóknir og nýsköpun ásamt hinum átta samstarfskólunum í Aurora-bandalaginu. Áætlunin mun m.a. kveða á um sameiginlega nýtingu á rannsóknarinnviðum háskólanna og sértækar aðgerðir til að þjálfa og styðja betur við rannsakendur. Markmiðið með samstarfinu er að rannsóknir og nýsköpun nýtist samfélaginu betur og sé einnig í þágu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. 

Einstakt tækifæri fyrir íslenskt þekkingarsamfélag

Ljóst er að í samstarfinu felast gríðarleg tækfæri fyrir Háskóla Íslands og íslenskt samfélag enda eru allir háskólar Aurora-bandalagsins öflugir alhliða rannsóknaháskólar sem leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð. Þannig mun sameiginleg áætlun um rannsóknir og nýsköpun gera íslenskum rannsakendum kleift að nýta aðbúnað, tækni, tæki, sérþekkingu og stuðning sem aðrir Aurora-háskólar búa yfir. Þá gefst tækifæri til að taka þátt í markvissu og nánu samstarfi með samstarfsskólunum í að hagnýta rannsóknir í þágu samfélagslegrar nýsköpunar. Kjarninn í samstarfinu er að gera háskólum betur kleift að takast á við stærstu áskoranir samtímans, s.s. loftlagsmál, sjálfbærni, heilsu og vellíðan og treysta stoðir lýðræðis og jafnréttis. 

Samstarfið mun einnig gera háskólanum kleift að þróa áfram og styðja við stefnuna um Opin vísindi (e. Open Science) sem miðar að því að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er innan háskólans. Með því að tryggja bæði innlendum og erlendum aðilum opinn aðgang að gögnum og niðurstöðum rannsókna og fræðigreina má betur nýta þær til hvers kyns fræðslu, vísinda og nýsköpunar. Nú þegar heimurinn hefur þurft að takast á við heimsfaraldur kórónuveiru má glöggt sjá hversu mikilvæg opin vísindi eru. Þróun bóluefnis við COVID-19 á mettíma er gott dæmi um hvernig opin vísindi og deiling upplýsinga og nýrrar þekkingar getur stuðlað að öflugu samstarfi milli rannsakenda um allan heim. Árangurinn sýnir jafnframt hvernig öflugt vísindasamstarf þvert á landamæri getur verið lykillinn að því að takast á við aðrar mikilvægar áskoranir sem samfélög heims standa frammi fyrir. 

Aurora-bandalagið nær til alls háskólasamfélagsins 

Aurora-bandalagið er hluti af nýju flaggskipi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um evrópskt samstarf í háskólamálum sem ber yfirskriftina European Universities Initiative. Markmiðið er að dýpka samstarf milli háskóla meira en áður hefur þekkst og þannig stuðla að framþróun starfsemi háskóla í Evrópu í takt við brýnar samfélagslegar áskoranir samtímans. Aurora-bandalagið hefur verið valið sem eitt af European Universities Alliances og hefur þegar fengið fimm milljóna evra styrk til þriggja ára til að vinna að margvíslegri nýsköpun í tengslum við nám og kennslu. Mikil tækifæri felast í Aurora-bandalaginu til að auka gæði náms og gefa nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands möguleika á að taka þátt í öflugu alþjóðlegu samstarfi.

Til að ná tilsettum árangri í starfsemi bandalagsins er mikilvægt að virkja allt háskólasamfélagið í að taka þátt í þessari mikilvægu vegferð. 

 

""