Forsætisráðherra hitti nemendur í Inngangi að stjórnun
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var gestur í fyrstu kennslustundinni í námskeiðinu Inngangur að stjórnun sem Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, hefur umsjón með. Námskeiðið er á fyrsta ári í viðskiptafræði en auk þess eru nemendur úr 12 öðrum deildum skólans skráðir í námskeiðið og samtals eru þátttakendur rúmlega 300 nú á vormisseri.
Heimsókn forsætisráðherra tók mið af samfélagsástandinu þar sem nemendur, kennari og Katrín voru öll á Zoom en það spillti ekki fyrir, Katrín fékk fjölmargar spurningar frá nemendum og umræður voru mjög líflegar.
Katrín lýsti því m.a. fyrir nemendum hvað felst í því að vera forsætisráðherra, í helsta stjórnunarstarfi landsins, hvert hlutverk hennar er í ríkisstjórn og hvernig er að stjórna í pólitísku umhverfi. Þá var rætt um muninn á hlutverki stjórnenda í skipulagsheildum og á Alþingi.
Einnig kom fram að þótt erfitt væri hjá mörgum fyrirtækjum í dag þá væru bjartari tímar fram undan í atvinnulífinu. Katrín var einnig á persónulegum nótum og sagði frá fyrri störfum sínum, m.a. sem málfarsráðunautur á fréttastofu Ríkisútvarpsins og eins hún sagði sjálf því skemmtilega starfi að vera kennari við Háskóla Íslands.
Við þökkum Katrínu fyrir að gefa sér tíma til þess að ræða við nemendur í deildinni.