Skip to main content
18. desember 2020

Styrktar til rannsókna á tengslahegðun barna og handleiðslu presta eftir hrunið

Styrktar til rannsókna á tengslahegðun barna og handleiðslu presta eftir hrunið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Díana Ósk Óskarsdóttir og Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir, doktorsnemar í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, hljóta styrki úr Sigrúnarsjóði í ár til doktorsrannsókna sinna. Samanlögð styrktarupphæð er ein milljón króna.

Í doktorsverkefni sínu rannsakar Díana Ósk reynslu og upplifun presta innan íslensku Þjóðkirkjunnar af handleiðslu eftir efnahagshrunið 2008 en því fylgdi mikil þjáning og kreppa. Rannsóknin byggist bæði á rýnihópum og einstaklingsviðtölum við presta um upplifun þeirra af því að veita sálgæslu við þessar krefjandi aðstæður. Í doktorsverkefninu er jafnframt fjallað um tilgang, ávinning og sögu handleiðslu.

Hlutverk og tilgangur handleiðslufræðanna hefur þróast með aukinni þekkingu liðinna ára. Fagaðilar sem starfa við meðferð, ráðgjöf eða sálgæslu eru sérstaklega berskjölduð fyrir streituvöldum. Í handleiðslu felast tækifæri til þess að staldra við, ígrunda bæði starfið sjálft og áhrif þess á persónuna á bak við fagheitið. Þar geta fagaðilar rýnt saman til gagns til að styðja við manneskjuna, efla fagmanninn, auka gæði þjónustunnar og seiglu.

Verkefnið var tengt rannsóknarverkefni Péturs Péturssonar, prófessors emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, „Kirkjan og hrunið. Trúin í hinu opinbera rými“. Pétur er jafnframt leiðbeinandi Díönu Óskar.

Meginmarkmið doktorsverkefnis Ragnheiðar Bjargar er tvíþætt. Annars vegar að rannsaka tengslahegðun íslenskra barna á aldrinum 3-5 ára við umönnunaraðila sína með svonefndri TCI-aðferðafræði (e. Toddler Care Index). Hins vegar að fræða og þjálfa fagaðila, sem koma að stuðningi við börn og fjölskyldur sem búa við hættu, í aðferðarfræði TCI svo unnt sé meta hættuna og veita snemmtækan og markvissan stuðning til að fyrirbyggja frekari skaða. 

Í framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019-2022 er rík áhersla lögð á að bæta verklag svo unnt sé að meta betur alvarleika tilkynninga sem berast barnaverndarnefndum og forgangsraða málum í þágu barna sem búa við hættu. Jafnframt er í áætluninni mikil áhersla á að innleiða gagnreynd matstæki, eins og TCI. Mikil þörf er á slíkum matstækjum þar sem tilkynningum til barnaverndaryfirvalda hefur fjölgað mikið að undanförnu. Þetta á sérstaklega við tilkynningar tengdar börnum sem búa við mikla hættu, heimilis- og líkamlegt ofbeldi en auk þess hafa tilkynningar vegna neyslu foreldra aukist til muna.

Doktorsverkefnið er unnið undir leiðsögn Freydísar Freysteinsdóttur, dósents við Félagsráðgjafadeild.

Sigrúnarsjóð stofnaði Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, en  hún er  einnig stofnandi og fyrsti stjórnarformaður Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands. Sigrún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar í menntun, rannsóknum og fræðum í félagsráðgjöf. Meginmarkmið og tilgangur rannsóknasjóðsins er að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf sem snerta hagsmuni barna og fjölskyldna. 

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og dósent sem jafnframt er formaður stjórnar, Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og lektor, og Halldór Sigurður Guðmundsson, félagsráðgjafi og dósent.   

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 

Þær Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir og Díana Ósk Óskarsdóttir tóku við styrkjunum í Aðalbyggingu í dag en viðstödd voru einnig Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor og stofnandi sjóðsins, og stjórnarmennirnir Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og dósent, og Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og lektor.