Þrjár bækur fræðimanna við HÍ tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Þrjár bækur fræðimanna við Háskóla Íslands eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árið 2020 en tilkynnt var um tilnefningarnar í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV í gærkvöld.
Líkt og undanfarin ár er tilnefnt til verðlaunanna í þremur flokkum: flokki fræðirita og bóka almenns efnis, flokki barna- og ungmennabóka og flokki skáldverka. Fimm bækur eru tilnefndar í hverjum flokki.
Sem fyrr segir eru þrjár bækur eftir fræðimenn við Háskóla Íslands tilnefndar en það eru Konur sem kjósa – aldarsaga, Fuglinn sem gat ekki flogið og Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár.
Konur sem kjósa er eftir þær Erlu Huldu Halldórsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur, prófessora í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, Kristínu Svövu Tómasdóttur, sagnfræðing, skáld og ritstjóra, og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur, sjálfstætt starfandi kynja- og sagnfræðing hjá ReykjavíkurAkademíunni. Þorgerður lést fyrr á þessu ári.
Sögufélagið gefur bókina út en hún fjallar um íslenska kvenkjósendur í eina öld og er sjónum beint að einu kosningaári á hverju áratug þar sem fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum.
„Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi,“ segir í umsögn dómnefndar um bókina.
Fuglinn sem gat ekki flogið er eftir Gísla Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði, og er gefin út af Máli og menningu. Í bókinni er fjallað um síðustu veiðiferðirnar á geirfuglaslóðir hér á landi, þá sem veiddu fuglana, keyptu og söfnuðu. Bókin byggist á rannsóknum Gísla á svokölluðum Geirfuglabókum sem er að finna á bókasafni Cambridge-háskóla og segir af af tveimur fuglaáhugamönnum sem sigldu til Íslands sumarið 1858, fundu enga geirfugla en skráðu kappsamlega og nákvæmlega frásagnir veiðimanna á Suðurnesjum.
„Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins,“ segir í umsögn dómnefndar um bókina.
Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár er eftir Sumarliða R. Ísleifsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild, og kemur út á vegum Sögufélagsins. Þar er fjallað um ímyndir Íslands og Grænlands en þjóðirnar sem byggja eyjarnar tvær hafa lengi verið framandi í augum annarra og ímyndir þeirra voru oft svipaðar en margt hefur líka greint á milli. Í bókinni er leitað svara við því hvers vegna íbúum þessara landa hefur ýmist verið lýst sem verstu villimönnum eða fyrirmyndarfólki og af hverju Íslandi og Grænlandi hafi stundum verið lýst sem djöflaeyjum og stundum sem fjársjóðs- eða sælueyjum.
„Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt,“ segir í umsögn dómnefndar.
Við þetta má bæta að í sama flokki er Pétur H. Ármannsson einnig tilnefndur fyrir bókina Guðjón Samúelsson húsameistari en þar er m.a. fjallað ítarlega um eitt af krúnudjásnum Guðjóns, sjálfa Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þá er Auður Ava Ólafsdóttir tilnefnd í flokki fagurbókmennta fyrir verk sitt Dýralíf en hún kenndi listfræði við Háskóla Íslands áður en hún helgaði sig alfarið ritstörfum.