Langtímarannsóknir í vistfræði hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Þær auka tölfræðilegt afl, setja styttri rannsóknir í víðara samhengi, sýna áhrif sjaldgæfra atburða og leggja hlutfallslega meira til vistfræðiþekkingar og stefnumótunar en styttri rannsóknir. Til að styrkja grunn styttri rannsókna sem unnar eru við setrið og til að bæta þekkingu á ferlum sem verka á stærri svæðum, söfnum við árlega nokkrum vísitölum um íslensk landvistkerfi. Gildi þessara vísa mun aukast með tímanum og öðlast sjálfstætt gildi.
Stofnbreytingar landfugla
Fuglar eru taldir árlega á föstum punktum á Suðurlandi, frá 2011 í Rangárvallasýslu en frá 2016 í Árnessýslu. Talningarnar fara fram síðustu tíu daga í júní á vegsniðum (sjá mynd neðst á síðu). Þar sem flestar rannsóknir okkar á einstökum tegundum fara fram á skilgreindum rannsóknasvæðum, hjálpa víðtækari talningar við að skilja staðbundna áhrifavalda frá þeim sem verka á stærri svæðum. Þessar talningar gera einnig kleyft að meta áhrif víðtækra þátta svo sem veðurs og eldvirkni á fjölda og dreifingu algengra íslenskra landfugla.
Ungaframleiðsla stórvaxinna vaðfugla
Til að meta breytileika í varpárangri á stórum svæðum er fjöldi ungahópa hjá stórvaxnari vaðfuglum talinn þegar punkttalningar fara fram í júní. Vaðfuglar sýna tilvist felugjarnra unga með atferli sínu svo staðlað mat á fjölda foreldra með varnaratferli gefur vísitölu á varpárangur. Þetta gengur best fyrir jaðrakan, tjald og spóa. Hjá sumum tegundanna er einnig hægt að leggja mat á fjölda unga og þroska. Vegna mismunandi varptíma tegunda er þessi talning endurtekin í lok júlí. Með þessari einföldu talningaraðferð hefur verið sýnt fram á hvernig varpárangur jaðrakans er nátengdur tíðafari og hver skammtímaáhrif eldgosa á varpaárangur eru.
Tímasetning varps
Ýmsir atburðir í náttúrunni hafa færst til í tíma samhliða loftslagsbreytingum. Þær breytingar virðast oft tengjast breytingum á stofnstærðum en ástæðurnar eru illa þekktar. Varptími fugla víða um heim hefur verið að breytast með hlýnandi loftslagi en varptími er mikilvægur þáttur í ársferli fugla og hefur mikil áhrif á stofna. Með því að finna hreiður algengra íslenskra mófugla og mæla eggin má sjá hvenær þeim var orpið og fá góðar upplýsingar um breytingar á varptíma. Þessar mælingar hjálpa okkur að tengja tímasetningar varps við lýðfræði og eru mikilvægar til að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á fuglastofna.
Breytileiki í smádýrastofnum
Algengar pöddur gegna lykilhlutverki í fæðuvefjum á landi og eru mikilvæg fæða fugla. Mikill breytileiki er í fjölda smádýra eftir svæðum og tímabilum og smádýr eru næm fyrir veðurfari og loftslagsbreytingum. Til að meta breytileika í smádýrastofnum notum við svokallaðar gluggagildrur (sjá mynd neðst) sem eru tæmdar vikulega yfir sumarið. Þessar upplýsingar nýtast til samanburðar við ýmsar upplýsingar um fugla, svo sem varptíma og varpárangur en einnig til að meta breytingar á stofnum algengra smádýra og viðbrögð lífríkis við loftslagsbreytingum.