Háskóli Íslands í samstarf við Klappir Grænar Lausnir
Háskóli Íslands og fyrirtækið Klappir Grænar Lausnir hafa ákveðið að hefja samstarf á sviði kennslu, rannsókna og þróunar á aðferðafræði til að meta sjálfbæra þróun samfélaga og skipulagsheilda á grunni Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Samvinnan er ætluð til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og þróun þess í átt að sjálfbærni.
Háskóli Íslands stundar rannsóknir og kennslu á sviði sjálfbærni og leggur áherslu á að styrkja stoðir rannsókna og veita nemendum aðgang að stafrænni tækni á sviði sjálfbærni til að þeir séu vel undir það búnir að takast á við verkefni framtíðarinnar. Rannsóknir Háskóla Íslands lúta meðal annars að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Parísarsamningnum og árangri fyrirtækja á sviði sjálfbærni.
Klappir eru almenningshlutafélag sem skráð var á First North markað Nasdaq á Íslandi árið 2017. Lögaðilar sem nota hugbúnað Klappa eru um 350 talsins, þar af um 300 innlendir aðilar. Stafrænar lausnir Klappa mynda einstaka samverkandi heildarlausn á sviði umhverfismála á Íslandi. Með hugbúnaði Klappa má lágmarka vistspor, tryggja fylgni við umhverfislöggjöf hverju sinni og sýna fram á árangurinn á sama tíma og dregið er úr rekstrarkostnaði.
Markmiðin með samstarfi Háskóla Íslands og Klappa Grænna Lausna eru að vinna að því að styrkja aðferðafræði og byggja upp þekkingu á sjálfbærni og skyldum sviðum með því að nýta hugbúnað Klappa til að mynda við kennslu. Annað skref er að sækja sameiginlega um styrki sem miða að framþróun aðferðarfræði við gagnaöflun, greiningu gagna og miðlun þekkingar á sjálfbærni og skyldum sviðum, m.a. með umsókn um Markáætlun til Rannís.
Fyrir hönd Háskóla Íslands leiða verkefnið Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild, og Lára Jóhannsdóttir, prófessor við þverfræðilega námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði. Af hálfu Klappa Grænna Lausna leiða dr. Jón Ágúst Þorsteinsson og Sigrún Jónsdóttir verkefnið. Þá eru fræðimenn frá Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn og IE Business School í Madrid samstarfsaðilar.