Skip to main content
26. ágúst 2020

Rannsóknasetur um smáríki hlýtur styrk frá menntaáætlun ESB

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Um er að ræða tveggja ára samstarfsverkefni á háskólastigi. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn, Háskólinn í Ljubljana og Háskólinn í Árósum. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. 

Markmið verkefnisins „Leadership in Small States (LIST)“ er leiðtogaþjálfun fyrir nemendur og unga fræðimenn innan samstarfsskólanna, ásamt því að þróa opið netnámskeið á háskólastigi sem verður hýst á vefsvæði edX-samstarfsnetsins. Smáríki standa frammi fyrir kerfislægum hindrunum vegna smæðar sinnar en til þess að yfirstíga þær hindranir þurfa smáríki öðrum fremur mikla leiðtogafærni.

Erasmus+ styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á stöðu smáríkja í Evrópu. Árið 2013 hlaut setrið öndvegissetursstyrk frá menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur síðan þá starfað sem Jean Monnet Centre of Excellence. Einnig hlaut setrið styrki úr Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2014, 2016 og 2018 fyrir verkefni sem lúta að stöðu smáríkja í Evrópu. Rannsóknasetur um smáríki hefur starfrækt sumarskóla í smáríkjafræðum frá árinu 2003 og hefur hlotið gæðaviðurkenningu Erasmus+ fyrir hann. 
 

Starfsfólk Alþjóðamálastofnunar