Skip to main content
25. ágúst 2020

Íslenskur hagfræðingur fær virt verðlaun á ráðstefnu í HÍ 

Íslenskur hagfræðingur fær virt verðlaun á ráðstefnu í HÍ  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jósef Sigurðsson, doktor í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla og kennari við Bocconi-háskóla á Ítalíu, vann á föstudag hin virtu Peggy and Richard Musgrave verðlaun á 76. ráðstefnu International Institute of Public Finance um opinber fjármál sem haldin var rafrænt í samstarfi samtakanna, Háskóla Íslands, Félagsvísindasviðs og Hagfræðideildar.

Verðlaunin fékk hann fyrir fræðigrein sína „Labor Supply Responses and Adjustment Frictions: A Tax-Free Year in Iceland“, sem hann kynnti á áðurnefndri ráðstefnu. Árið 1988 var tekið upp staðgreiðslukerfi skatts. Ákveðið var að haga upptöku staðgreiðslukerfisins þannig að árið 1987 myndi launafólk greiða skatta af launatekjum ársins 1986. Árið 1988 tók staðgreiðslukerfið við. Þetta varð til þess að tekjur sem launþegar öfluðu árið 1987 voru taldar fram en ekki skattlagðar sérstaklega.  Þetta notar Jósef til að kanna hvernig framboð vinnuafls bregst við tímabundnum launabreytingum. Hagfræðingar hafa lengi velt þeirri spurningu fyrir sér og hentaði hið svokallaða „skattlausa ár“ á Íslandi einkar vel í slíka rannsókn. Tilraunin sem felst í skattlausa árinu íslenska er vel þekkt meðal hagfræðinga. Meðal annars hefur verið fjallað um skattlausa árið sem kennslubókardæmi í einni mest notuðu hagfræðikennslubók heims, Principles of Economics eftir N. Gregory Mankiw. 

International Institute of Public Finance (IIPF) eru alþjóðleg samtök hagfræðinga sem vinna með margvísilegum hætti að viðfangsefnum sem tengjast opinberum fjármálum. Samtökin voru stofnuð í París árið 1937 og eru félagsmenn um 750 í 50 löndum (sjá nánar á iipf.org og iipf2020.hi.is). 

76. árlega ráðstefna samtakanna átti að fara fram í Reykjavík en vegna COVID-19-heimsfaraldursins fór hún fram rafrænt í samstarfi við Hagfræðideild og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Ráðstefnan er stærsti viðburður samtakanna og markar hápunkt hvers starfsárs og hafði undirbúningur fyrir ráðstefnuna hér staðið í tæp 3 ár. Upphaflega var gert ráð fyrir að milli 400 og 500 manns myndu sækja Reykjavík heim og njóta skoðanaskipta og samræðna við kollega.

Ávarp rektors við upphaf ráðstefnunnar

Þema ráðstefnunnar var opinber fjármál, náttúruauðlindir og loftslagsbreytingar og töldu ráðstefnugestir um 350 hagfræðinga og vísindamenn víðs vegar að úr heiminum. Lykilfyrirlesarar voru þekktir hagfræðingar sem ræddu m.a. um áhrif COVID-19 á skipulag skattkerfa, áhrif skattlagningar á bíla og bílanotkun og áhrif afkolefnisvæðingar raforkuframleiðslu á verðlagningu raforku. Málstofur spönnuðu afar fjölbreytt svið opinberra fjármála, allt frá sköttum, skattlagningu og skattundanskotum til fjármála sveitarfélaga, lífeyrissjóða, atferlishagfræði og allt þar á milli. 

Ávarp forsætisráðherra við lok ráðstefnu

Stefnt verður að því að halda ráðstefnuna í Reykjavík að ári ef aðstæður leyfa.

"Jósef Sigurðsson"
"Hér má sjá fulltrúa Háskóla Íslands í stjórnherbergi ráðstefnunnar"
"Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórnherbergi ráðstefnunnar"
"Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórnherbergi ráðstefnunnar"