Skip to main content

Áhugi spáir betur fyrir um lífsstefnu en persónuleiki

""

Áhugi hefur meiri áhrif á lífsmarkmið okkar en persónuleiki samkvæmt nýrri rannsókn sem hópur vísindamanna þar á meðal við Háskóla Íslands, hefur unnið og birtist nýverið í vísindaritinu Journal of Research in Personality. Fjallað var um rannsóknina á dögunum í hinu víðlesna viðskiptatímariti Forbes.

„Náms- og starfsráðgjafar hafa það hlutverk að aðstoða fólk við að velja starf við hæfi og sem gerir það ánægt. Kveikjan að rannsókninni var að komast skrefi nær því að skilja hvaða þættir hafa áhrif á þróun starfsferils hjá ungu fólki en þarna beindum við athyglinni sérstaklega að tengslum áhuga og persónuleika við lífsmarkmið fólks,“ segir Sif Einarsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands og einn af rannsakendum. 

En hvað eru lífsmarkmið? „Lífsmarkmið endurspegla hvert þú stefnir almennt í lífinu byggt á þínum gildum – hvað skiptir þig helst máli, t.d. efnahagsleg gæði, fagurfræði, samfélagagslegt framlag eða pólitísk áhrif, tengsl, trú, menntun eða sældarhyggja (að hafa gaman). Þau eru vísbending um hvaða stefnu einstaklingar taka almennt í lífinu og hafa áhrif á ákvarðanir þeirra og hegðun. Ef við vitum hvað hefur áhrif á þessa meginstefnu – breið lífsmarkmið –  getum við bætt náms- og starfsráðgjöf. Við erum jú ólík og sækjumst ekki öll eftir því sama í lífi og starfi. Suma skiptir t.d. mestu máli að hafa nóg á milli handanna en aðrir vilja hafa áhrif í sínu samfélagi og enn aðrir hafa áhuga á að hjálpa öðrum fyrst og fremst,“ bendir Sif á.

Ríkjandi kenning í persónuleikafræðum gerir ráð fyrir fimm persónuleikaþáttum hjá fólki: úthverfu, samvinnuþýði, samviskusemi, tilfinningalegum stöðugleika og víðsýni. Tengsl þessara þátta við lífsmarkmið annars vegar og áhuga hins vegar voru könnuð í rannsókninni en áhuga fólks er samkvæmt fræðunum skipt í sex meginsvið: handverks-, vísinda-, lista-, félags-, athafna- og skipulagssvið. „Kenningar gefa vísbendingu um að áhugi hafi meiri áhrif á markmið eða stefnu okkar í lífinu en persónuleiki og því lögðum við upp með það meginmarkmið að prófa hvort þessi áhugi skýri breytileika í lífsmarkmiðum betur en persónuleiki,“  segir Sif en þetta var í fyrsta sinn sem slíkt var rannsakað sérstaklega. 

Til þess að gera það lagði rannsóknarhópurinn fyrir bæði áhugakönnun, persónuleikapróf og könnun á lífsmarkmiðum meðal um 1350 framhaldsskólanema hérlendis auk tæplega 400 háskólanema í Bandaríkjunum. 

„Náms- og starfsráðgjafar hafa það hlutverk að aðstoða fólk við að velja starf við hæfi og sem gerir það ánægt. Kveikjan að rannsókninni var að komast skrefi nær því að skilja hvaða þættir hafa áhrif á þróun starfsferils hjá ungu fólki en þarna beindum við athyglinni sérstaklega að tengslum áhuga og persónuleika við lífsmarkmið fólks,“ segir Sif Einarsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands og einn af rannsakendum. 

Sif Einarsdóttir

Í ljós kom að áhugi spáir um helmingi betur fyrir um lífsmarkmið en persónuleikaþættirnir fimm. „Að auki hafði áhugi tengsl við lífsmarkmið umfram persónuleika. Þetta þýðir að áhugi hefur meiri áhrif á lífsmarkmið eins og fagurfræði, samfélagsleg, efnahagsleg og menntunarleg gildi og sældarhyggju en persónuleiki,“ segir Sif og bætir við: „Saman hafa persónuleiki og áhugi þó mikil áhrif á lífsmarkmið. Til dæmis skýra áhugi og persónuleiki saman um 40% af dreifingu samfélagslegra markmiða, en þar vegur þyngst áhugi á félagssviði og samvinnuþýði. Úthverfa, samviskusemi og áhugi á athafnasviði vógu þyngst í skýringum á efnahagslegum og pólitískum markmiðum en víðsýni og áhugi á listasviði á fagurfræðilegum markmiðum,“ segir Sif og undirstrikar að mjög sambærilegar niðurstöður hafi fengist hjá íslensku og bandarísku nemunum.

Sif segir aðspurð að þessar niðurstöður undirstriki að mikilvægt sé að vinna bæði með áhuga fólks  og persónuleika við ráðgjöf í námi og starfi „svo flestir finni sér starfsvettvang sem þeim líður vel í og geti blómstrað. Það er alltaf meginmarkið okkar í náms- og starfsráðgjöf. Hvað það er fer eftir lífsmarkmiðum sem geta verið ólík. Það sækjast ekki allir eftir því sama,“ segir hún. 

Sif bendir enn fremur á að hér á landi hafi náms- og starfsráðgjafar mikið stuðst við áhugakannanir þegar verið sé að aðstoða nemendur við náms- og starfsval. „Þessi rannsókn styður þá áherslu,“ bætir hún við.

Sem fyrr segir fjallaði viðskiptatímaritið Forbes um rannsóknina. „Það er athyglisvert að áhugi Forbes á þessari grein tengist meira að vinnusálfræði og mannauðsstjórnun en við bendum á að fyrirtæki og stofnanir ættu í ljósi þessarar rannsóknar að líta til áhuga starfsmanna, auk persónuleika, við ákvörðunartöku á sviði mannauðsmála, eins og í ráðningum og um starfsþróun einstaklinga,“ segir Sif að endingu.