Hlaut hæstu meðaleinkunn á meistaraprófi í lögfræði í sögu Lagadeildar
Ivana Anna Nikolic hlaut hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið á meistaraprófi í lögfræði í sögu Lagadeildar við brautskráningu frá Háskóla Íslands sem fram fór síðastliðinn laugardag. Fyrir árangurinn hlaut Ivana Anna 250 þúsund króna viðurkenningu frá LOGOS lögmannsþjónustu.
Frá Lagadeild brautskráðust að þessu sinni alls 37 nemendur með meistarapróf í lögfræði (mag.jur.) og 35 nemendur luku BA-prófi í lögfræði. Þá var brautskráður einn nemandi með LL.M. meistarapróf í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti.
Ivana hlaut meðaleinkunnina 9,5 við útskrift og hún tók við viðurkenningunni úr hendi Erlendar Gíslasonar frá LOGOS lögmannsþjónustu við sérstaka athöfn á vegum Lagadeildar á föstudag. Hún segir mikilvægt, vilji maður ná slíkum árangri, að hafa áhuga á náminu sínu. „Meistaranámið er þannig uppsett að maður getur valið á milli námskeiða og ég valdi því námskeið sem höfðuðu mest til mín og ég vissi að ég hefði gaman af. Svo er það kannski þetta klassíska, þ.e. að skipuleggja sig vel, vera duglegur og vinna jafnt og þétt yfir önnina,“ segir hún.
Ritgerð Ivönu fjallaði um læknamistök í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og íslenskan rétt og var hún skrifuð undir handleiðslu Róberts R. Spanó, forseta Mannréttindadómstólsins og prófessors við Lagadeild. „Ritgerðin sneri í grundvallaratriðum að því að rannsaka hvaða skyldur hvíli á ríkjum í þessum málaflokki í ljósi 2. og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og jafnframt að kanna hvort og þá hvernig hið íslenska réttarkerfi er til þess fallið að uppfylla þær skyldur sem á ríkinu hvíla. Ég fór í heimsókn í Mannréttindadómstólinn í febrúar og þar kom vitneskjan um þessa dómaframkvæmd fram. Mér fannst efnið strax ótrúlega spennandi en mannréttindi hafa alltaf heillað mig,“ segir hún.
Síðustu fimm árum í Lagadeildinni lýsir Ivana Anna sem krefjandi en skemmtilegum og bætir við að við deildina starfi reynslumikið og hæft fólk sem leggi mikinn metnað í kennsluna. „Ég tel mig afskaplega vel undirbúna fyrir framtíðina eftir námið við deildina. Ég hef starfað sem laganemi hjá umboðsmanni Alþingis með námi og er nú orðin lögfræðingur hjá embættinu. Ég er mjög spennt fyrir því að takast á við það verkefni og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Ivana.
„Meistaranámið er þannig uppsett að maður getur valið á milli námskeiða og ég valdi því námskeið sem höfðuðu mest til mín og ég vissi að ég hefði gaman af. Svo er það kannski þetta klassíska, þ.e. að skipuleggja sig vel, vera duglegur og vinna jafnt og þétt yfir önnina,“ segir Ivana Anna Nikolic um frábæran námsárangur sinn. Hún tók við viðurkenningu fyrir árangurinn úr hendi Erlendar Gíslasonar frá LOGOS lögmannsþjónustu við sérstaka athöfn á vegum Lagadeildar á föstudag. MYND/Gunnar Sverrisson
Viðurkenning vegna hæstu einkunnar á BA-prófi
Við athöfn Lagadeildar sl. föstudag fengu fleiri nemendur deildarinnar viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Þannig hlaut Guðrún Gígja Sigurðardóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á BA-prófi námsárið 2019-2020. Verðlaunin námu 150 þúsund krónum og fyrir hönd Hollvinafélags Lagadeildar afhenti Aðalheiður Jóhannsdóttir, deildarforseti verðlaunin. Guðrún Gígja hlaut einnig viðurkenningu Páls Hreinssonar, dómara við EFTA dómstólsins í Lúxemborg, og Róberts R. Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg. Viðurkenningin er í formi heimsóknar til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg og Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg til að kynna sér starfsemi dómstólanna. Aðalheiður deildarforseti afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Páls og Róberts.
Viðurkenning fyrir besta námsárangurinn á fyrsta ári
Bókaútgáfan Codex veitti að venju viðurkenningu þeim nýnema sem stóðst öll námskeið fyrsta árs í fyrstu tilraun með hæstu meðaleinkunn. Að þessu sinni var Gísli Laufeyjarson Höskuldsson með hæstu einkunn og fékk hann að gjöf allar námsbækur 2. og 3. árs í lögfræði sem gefnar eru út af Codex. Sigríður Erla Sturludóttir afhenti viðurkenninguna fyrir hönd bókaútgáfunnar Codex.
Viðurkenning fyrir bestu meistararitgerðina
Lögmenn Lækjargötu ehf. veittu viðurkenningu að upphæð 250 þúsund krónur til þess nemanda sem skilaði bestu lokaritgerð til meistaraprófs í lögfræði á undangengnu almanaksári. Þær ritgerðir koma til greina sem hafa fengið einkunnina 9,0 eða hærra en þriggja manna dómnefnd, sem var skipuð tveimur fulltrúum Lagadeildar og einum fulltrúa frá Lögmönnum Lækjargötu, mat þær ritgerðirnar sem til greina komu.
Meistararitgerð Evu Huldar Ívarsdóttur „Um sönnun í nauðgunarmálum. Saklaus uns sekt er sönnuð?“, sem unnin var undir leiðsögn Ragnheiðar Bragadóttur prófessors, hlaut verðlaunin að þessu sinni. Birgir Tjörvi Pétursson héraðsdómslögmaður, eigandi og framkvæmdastjóri Lögmanna Lækjargötu, afhenti viðurkenninguna. Matsnefndina skipuðu að þessu sinni Davíð Örn Sveinbjörnsson, fyrir hönd Lögmanna Lækjargötu, Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor og forseti Lagadeildar, og Kári Hólmar Ragnarsson, héraðsdómslögmaður og stundakennari fyrir hönd Lagadeildar.