Skip to main content
10. júní 2020

Framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs HÍ rísi í Vatnsmýri innan fjögurra ára

Stefnt er að því að ný bygging sem verður framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands rísi á svæði Vísindagarða skólans í Vatnsmýri á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu sem Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, undirrituðu á ársfundi Háskólans í Hátíðasal í morgun. 

Markmiðið með uppbyggingunni er að efla kennaramenntun og menntavísindi við Háskóla Íslands og styrkja verulega tengsl menntavísinda við önnur fræðasvið í skólanum, en starfsemi sviðsins hefur allt frá sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands árið 2008 verið til húsa í Stakkahlíð og Skipholti. Það húsnæði hentar ekki vel nútímalegum náms- og kennsluháttum en mikil og ör þróun, tæknivæðing og aukin áhersla á rafræna kennsluhætti kallar á sveigjanlegt námsumhverfi. 

„Menntavísindasvið gegnir lykilhlutverki í menntakerfinu okkar, enda verður ekkert menntakerfi gott án öflugra kennara, þroskaþjálfa, tómstunda-, íþrótta- og heilsufræðinga, uppeldis- og menntunarfræðinga.  Kerfið okkar er gott í grunninn, en við ætlum að bæta um betur og bjóða fyrsta flokks menntun fyrir alla, sem bæði nýtist einstaklingum og samfélaginu í heild. Ég hef átt frábært samstarf við Menntavísindasvið og veit hvers það er megnugt, en með uppbyggingu á nútímalegri aðstöðu til kennslu og fræðastarfa verður starfið enn öflugra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Fram kemur í viljayfirlýsingunni að aðstaða og umgjörð Menntavísindasviðs þurfi að vera til fyrirmyndar og nauðsynlegt sé að vinnuaðstaðan myndi lifandi vettvang fyrir margvíslega teymisvinnu í síbreytilegu lærdómssamfélagi þar sem virk þátttaka nemenda skiptir höfuðmáli. Sameining Háskólans á einum stað sé lykill að því að styrkja námssamfélag nemenda í menntavísindum, renna styrkari stoðum undir samstarf milli fræðasviða, sérstaklega um kennaranám, og stuðla að þverfaglegum rannsóknum innan skólans. 

„Ég er þess fullviss að flutningur Menntavísindasviðs muni stuðla að heilsteyptara háskólasamfélagi, samhæfðari stoðþjónustu við bæði kennara og nemendur sviðsins og betra aðgengi að félagslífi fyrir nemendur í menntavísindum,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. Hún telur mjög jákvætt að nýtt hús Menntavísindasviðs verði hluti af gróskumikilli og þverfræðilegri starfsemi á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands sem eru í hraðri uppbyggingu. „Þetta verkefni mun hafa áhrif á stóran hóp, nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands, fagfólk í menntakerfinu, almenning og stjórnvöld, og stuðla að öflugra menntakerfi, íslensku samfélagi til heilla,“ segir Kolbrún.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands er eitt fimm fræðasviða skólans. Innan fræðasviðsins starfa fjórar deildir, Deild faggreinakennslu, Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Deild kennslu- og menntunarfræða og Deild menntunar og margbreytileika.

„Það er með afar mikilli gleði sem ég undirrita þessa viljayfirlýsingu. Frá því að Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust 1. júlí 2008 og Menntavísindasvið varð til hefur verið stefnt að því að sviðið flytti starfsemi sína á meginsvæði Háskólans. Hins vegar hefur málið ekki komist á rekspöl fyrr en nú og með undirritun viljayfirlýsingarinnar leggur ráðherra lóð sín á vogarskálarnar til að þetta muni gerast í allra nánustu framtíð. Það er von mín að nýbygging sviðsins verði tilbúin innan fjögurra ára. Hún mun leggja grunn að betri samþættingu fræðigreina innan Háskóla Íslands, efla Háskóla Íslands, kennaramenntun og menntavísindi og verða íslensku skólakerfi og samfélagi til heilla,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
 

Jón Atli Benediktsson rektor, Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, að lokinni undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Áætlað er að nýbygging Menntavísindasviðs rísi í landi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri, á lóð sem merkt er 9 á myndinni.