Þrjú í stýrihópi nýs dansk-íslensks rannsóknaseturs
Prófessorarnir Auður Hauksdóttir, Magnús Tumi Guðmundsson og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir verða fulltrúar Íslands í stýrihópi nýs dansk-íslensks rannsóknaseturs um hafið, loftslag og samfélag sem er verið að setja á laggirnar um þessar mundir í nafni Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.
Eins og kunnugt er fagnaði Vigdís 90 ára afmæli þann 15. apríl og Margrét varð áttræð degi síðar. Af því tilefni lagði Carlsbergsjóðurinn til röskar 500 milljónir króna til stofnunar rannsóknasetursins, en hann á sér afar merka sögu hér á landi. Auk þess lögðu íslenska ríkið fram 140 milljónir króna til verkefnisins og Rannsóknasjóður í umsýslu Rannís 100 milljónir króna. Verkefnið tengist m.a. þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að vilja heiðra langt og farsælt vísindasamstarf Dana og Íslendinga og efla það til framtíðar í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins á síðasta ári.
Rannsóknasetrið ber heitið „Þvervísindalegt rannsóknasetur Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag“ en markmið þess er að auka skilning á samspili loftslags og vistkerfa og á áhrifum loftslagstengdra breytinga í hafinu á íslenska menningu og samfélag. Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands en þungamiðja rannsókna þess verður hafið umhverfis Ísland. Þar verða verða nýjungar í greiningum á DNA í umhverfinu hagnýttar til að varpa ljósi á samspil loftslags, lifandi vera og samfélags. Til stendur að ráða unga nýdoktora til verkefnisins sem stunda munu rannsóknir við báða háskóla og tengja saman danska og íslenska vísindamenn sem tengjast setrinu.
Vigdís Finnbogadóttir fagnaði 90 ára afmæli þann 15. apríl og Margrét Danadrottnig varð áttræð degi síðar. Af því tilefni lagði Carlsbergsjóðurinn til röskar 500 milljónir króna til stofnunar rannsóknasetursins en auk þess lögðu íslenska ríkið fram 140 milljónir króna til verkefnisins og Rannsóknasjóður í umsýslu Rannís 100 milljónir króna. Verkefnið tengist m.a. þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að vilja heiðra langt og farsælt vísindasamstarf Dana og Íslendinga og efla það til framtíðar í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins á síðasta ári.
Sex vísindamenn munu skipa stýrihóp rannsóknarsetursins sem ætlað er að hafa yfirumsjón með verkefnum þess, þrír frá Danmörku og þrír frá Íslandi. Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnar, leiðir verkefnið en auk hennar munu Lars Stemmerik, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og Flemming Besenbacher, stjórnarformaður Carlsbergsjóðsins og prófessor við Árósaháskóla, eiga sæti í stýrihópnum af hálfu Dana.
Forsætisráðuneytið hefur að höfðu samráði við Háskóla Íslands og Rannís ákveðið að skipa þau Auði Hauksdóttur, prófessor við Mála- og menningardeild, Magnús Tuma Guðmundsson, deildarforseta og prófessor við Jarðvísindadeild, og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda og prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, í stýrihópinn og mun Auður leiða verkefnið fyrir hönd Íslands.
Stýrihópurinn mun taka strax til starfa og má vænta frekari frétta af verkefninu áður en langt um líður.