Foreldrafærniúrræði fyrir flóttafólk
Menntavísindastofnun í samstarfi við fræðimenn á Menntavísindasviði er í forsvari fyrir evrópska verkefnið SPARE (Strengthening Parenting Among Refugees In Europe). Verkefnið hlaut Nordplus styrk síðastliðið haust og er unnið í samstarfi á milli Íslands, Noregs, Danmerkur og Hollands.
Margrét Sigmarsdóttir, lektor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, er tengiliður verkefnisins. „Börn innflytjenda eru oft undir miklu álagi og því í áhættu með að sýna aðlögunarerfiðleika á borð við hegðunarerfiðleika, kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Þau eru í áhættuhópi með að leiðast frekar út í misnotkun áfengis og vímuefna og eiga oftar í félagslegum erfiðleikum,“ segir hún.
Markmið SPARE-verkefnisins er að nýta sannreynd foreldrafærniúrræði til að fyrirbyggja vanda barna á aldursbilinu 2-18 ára og bæta aðlögun allrar fjölskyldunnar í nýjum heimkynnum. Samhliða því að styrkja foreldrana í sínu hlutverki er unnið með þætti tengda áfallavinnu með tilfinningaþjálfun og núvitund.
Árið 2020 verður þremur foreldrahópum í Reykjavík boðin þátttaka og munu MA-nemar frá Menntavísindasviði taka þátt í verkefninu.
Samstarfsaðilar verkefnisins frá Íslandi, Noregi, Danmörku og Hollandi kom saman á Íslandi nýverið og dvöldu á Laugarvatni þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.