Skip to main content
27. febrúar 2020

Óvissustig vegna COVID-19 faraldurs

Óvissustig vegna COVID-19 faraldurs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ríkislögreglustjóri hefur, í samráði við sóttvarnalækni og landlækni, lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna kórónaveirufaraldurs, Covid-19.  Starfsmenn og stúdentar eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá Landlæknisembættinu og hlýða ráðum og fyrirmælum sem þaðan koma.   

Sjá nánari upplýsingar á vef Landlæknis  

Fólk sem er að koma heim eftir dvöl á svæðum þar sem COVID-19 faraldur er í gangi og samfélagssmit talið útbreytt á að fylgja fyrirmælum smitsjúkdómalæknis um sóttkví. Sjá nánari upplýsingar hér

Á vefsvæði Landlæknis er lýst helstu leiðum til að draga úr sýkingarhættu og forðast smit og þar er einnig að finna svör við algengum spurningum. 

Almennt er fólk beðið að halda ró sinni en gá hvert að öðru og halda sig heima ef það veikist, hvort sem veikindin stafa af kvefpest, flensu eða öðru.

Rektor sendi fyrr í dag eftirfarandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta vegna faraldursins.

„Kæra samstarfsfólk / kæru nemendur

Borist hafa ábendingar um að starfsfólk og stúdentar Háskóla Íslands sé nú að snúa aftur til vinnu eftir að hafa verið á ferðalagi á Norður-Ítalíu og okkur hafa borist fyrirspurnir um hvernig bregðast skuli við því.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar vegna ferðalaga til áhættusvæða sem eru svæði þar sem miklar líkur eru á samfélagssmiti, en þau svæði eru nú: Kína, fjögur héruð á Norður Ítalíu (Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte), Suður-Kórea og Íran. Sóttvarnalæknir ræður fólki frá ónauðsynlegum ferðum til þessara svæða og mælist til að þeir sem hafa verið þar nýlega fari í 14 daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð. Einnig eru þeir sem hafa dvalið á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife á Spáni frá 17.febrúar sl. beðnir um að halda sig heima í sóttkví í 14 daga frá því þeir yfirgáfu hótelið og vera í sambandi við síma 1700 eða sína heilsugæslustöð.

Sjá nánar hér

Mælst er til að farið sé eftir þessum ráðleggingum sóttvarnalæknis sem uppfærðar eru eftir ástæðum.

Með góðri kveðju,

Jón Atli Benediktsson rektor“
 

Manneskja á göngu við Háskólatorg