Fyrstu tvær bækurnar í ritröð um meginatriði almenns stjórnsýsluréttar
Út eru komnar fyrstu tvær bækurnar í sjö bóka ritröð um meginatriði hins almenna stjórnsýsluréttar á vegum bókaútgáfunnar Fons Juris. Ekki hefur verið ráðist í sambærilega heildarútgáfu á réttarsviðinu áður. Ritröðin er unnin undir ritstjórn dr. juris Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins og rannsóknarprófessors við Lagadeild Háskóla Íslands, og Trausta Fannars Valssonar, dósents við Lagadeild Háskóla Íslands, en þeir eru jafnframt höfundar þeirra tveggja bóka sem nú koma út. Að verkefninu stendur ennfremur Rannsóknarstofa í stjórnsýslurétti við Lagadeild Háskóla Íslands.
Þetta er stór áfangi í rannsóknum á stjórnsýslurétti. Ritröðin mun nýtast starfsmönnum stjónvalda, lögmönnum og ekki síst laganemum segir Trausti Fannar Valsson, annar af tveimur höfundum bókanna
Bók Trausta Fannars Valssonar heitir Stjórnsýslukerfið en þar má meðal annars finna aðgengilega lýsingu á stjórnsýslukerfinu, hverjir fara með stjórnsýsluna og einstaka skipulagsheildir, fjallað um hvernig stigveldi og yfirstjórn er almennt byggð innan kerfisins og hvernig má framselja vald frá einu stjórnvaldi til annars. Einnig er í bókinni að finna lýsingu á þeim verkefnum sem stjórnvöld sinna og þeim stjórntækjum sem þau hafa til framkvæmda. Má því líta á hana sem inngang að almennum stjórnsýslurétti.
Seinni bókin heitir Málsmeðferð stjórnvalda og er höfundur hennar Páll Hreinsson. Í bókinni fjallar Páll á skýran hátt um þær réttarreglur sem gilda um það hvernig stofnað er til stjórnsýslumála, hvernig þau eru rannsökuð og hvernig ákvörðun er tekin í þeim málum. Fjallað er um mikilvægar reglur svo sem um sérstakt hæfi starfsmanna stjórnvalda, leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, rannsóknarreglu, andmælareglu, um aðgang aðila máls að gögnum og reglum um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana. Einnig er í bókinni vikið að þýðingu persónuupplýsingalaga við meðferð stjórnsýslumála. Sjónarhornið er því samskipti borgaranna sem aðila málsins og þess stjórnvalds sem fer með málið og tekur ákvörðun.
Eins og fyrr er frá greint munu samtals verða sjö bækur í þessari ritröð. Þau rit sem eiga eftir að koma út eru: Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar, Endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, Opinber starfsmannaréttur, Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi og Upplýsingaréttur. Stefnt er að því að gefa út eitt til tvö rit á ári.