Skip to main content
29. október 2019

83 ára meistarakandídat og hefur enn ekki fundið helga steininn

""

Liðlega 270 manns fögnuðu þeim gleðilega áfanga síðastliðinn föstudag að brautskrást annaðhvort úr grunn- eða framhaldsnámi frá Háskóla Íslands. Þótt ekki færi fram formleg brautskráningarathöfn þann dag lögðu fjölmargir leið sína í skólann til að sækja brautskráningarskírteinið. Þeirra á meðal var Sólveig Guðlaugsdóttir sem brautskráðist með MA-gráðu í fötlunarfræðum frá Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Sólveig, sem er 83 ára, er elsti nemandi sem lokið hefur meistaranámi frá Háskólanum frá upphafi.Aðspurð hvað hún hafi starfað áður en hún settist helgan stein segist Sólveig unnið um árabil sem geðhjúkrunar- og fjölskyldufræðingur. „Í gegnum árin hef ég stöðugt verið að bæta við þekkingu mína á því sviði sem byggist á vinnu með börnum, unglingum og fjölskyldum þeirra, með áherslu á einhverfu og ADHD. Ég hef unnið á Barna- og unglingageðdeild Landspítala og í heimahjúkrun á sviði geðhjúkrunar með samning við Tryggingarstofnun,“ segir Sólveig og bætir við: „Hvað varðar „helga steininn“ svara ég eins og frú Vígdís Finnbogadóttir gerði í eina tíð: „Ég hef ekki fundið þann stein enn þá“,“ segir þessi kraftmikla kona sem starfaði að ofangreindum málum langt fram á áttræðisaldur.

„Þegar ég hætti störfum skoðaðaði ég minn hug um hvað yrði næst og það sem kom upp í hendurnar á mér var auglýsing um diplómanám í fötlunarfræði. Það var nokkuð sem sem ég hafði séð koma fagfólki að gagni í samskiptum við sína skjólstæðinga og inn komst ég og var tekið af einstakri hlýju,“ segir Sólveig sem byrjaði í diplómanáminu 2014. Eitt leiddi svo að öðru og hún ákvað að klára meistarapróf í faginu. „Ég hef mikla gleði af því að læra og þroskast og hef blessunarleg góða heilsu enn þó ég sé 83 ára,“ segir hún enn fremur.

Sólveig segir námið allt og samskipti við kennara og nemendur hafa verið sanna ánægju. „Málstofur voru mér mikil hvatning og ég fann aldrei fyrir því að ég væri gamla konan, við vorum eingöngu á jafningjagrunni þar sem ég lærði af þeim og að ég held gagnkvæmt,“ segir hún um samskipti við nemendur og kennara í náminu. Þá segist hún enn fremur afar þakklát fyrir þann stuðning og hvatningu sem hún hafi fengið frá leiðbeinanda sínum í meistaranámi, Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur, prófessor í fötlunarfræði.

„Þegar ég hætti störfum skoðaðaði ég minn hug um hvað yrði næst og það sem kom upp í hendurnar á mér var auglýsing um diplómanám í fötlunarfræði. Það var nokkuð sem sem ég hafði séð koma fagfólki að gagni í samskiptum við sína skjólstæðinga og inn komst ég og var tekið af einstakri hlýju,“ segir Sólveig sem tók við brautskráningarskírteini sínu úr hendi Stefáns Hrafns Jónssonar, forseta Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Meistaraverkefnið um móður og tvö börn á einhverfurófi

Meistaraverkefni Sólveigar er nátengt fyrri störfum hennar. „Verkefnið fjallar um líf og baráttu móður og tveggja uppkominna barna hennar. Öll höfðu þau fengið greiningar á einhverfurófi á misjöfnum tíma í lífinu. Áhersla var á baráttu móður við að halda þeim saman sem fjölskyldu og tryggja öryggi barna sinna og sitt um leið,“ segir Sólveig og bætir við: „Ég hafði áhuga á því að verkefnið fjallaði á einhvern hátt um það fólk/börn sem hafa kennt mér mest og best um fjölbreytileika mannlegs lífs. Það fór þannig að eftir að ég hafði skrifað fyrstu viðtölin við móðurina var mér boðið að þetta verkefni yrði hluti af stærra verkefni undir heitinu „Fjölskyldulíf og fötlun“ undir stjórn leiðbeinanda míns og James Rice lektors. Þá tókum við, ég og fjölskyldan, ákvörðun sem varð eingöngu lífsaga þeirra í þeirri von að saga þeirra gæti skipt máli.“

Sólveig segir að í stuttu máli undirstriki verkefnið mikilvægi samstarfs innan velferðarkerfisins sem byggist á gagnkvæmri virðingu stuðningsaðila og einstaklinga/fjölskyldna, samstarfi þar sem raddir skjólstæðinga heyrist og þjónustan byggist á.

Aðspurð hvað standi upp úr að loknu námi segir Sólveig að það sé þakklæti, „og ef eitthvað er, óskin og vonin um að fólk þurfi ekki að bíða eftir ákveðnum greiningarviðmiðum þar til það fær viðunandi þjónustu.“

Háskóli Íslands óskar Sólveigu og öðrum nýútskrifuðum kandídötum innilega til hamingju með áfangann.

Sólveig Guðlaugsdóttir með brakandi ferskt MA-próf í fötlunarfræði ásamt Stefáni Hrafni Jónssyni, forseta Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. MYND/Kristinn Ingvarsson