Skip to main content
30. október 2019
""

Staða erlends starfsfólks á Íslandi, viðhorf lögreglunema til skotvopnaburðar, börn sem búa við fátækt og erfiðar aðstæður, einelti, vernd uppljóstrara, fæðingarorlof og fjölskyldulíf, íslensk dægurtónlist, kynbundið ofbeldi, loftslagsmál í ólíkum heimsálfum, lýðræði á Íslandi, áskoranir í sjávarútvegi, móðurhlutverkið og þungunarrof, stétt og mótmæli og þjóðmenning og menningararfur er meðal þess sem fjallað verður um á Þjóðarspeglinum: Ráðstefnu í félagsvísindum haldin verður í 20. sinn í Háskóla Íslands föstudaginn 1. nóvember kl. 9-17. 

Þjóðarspegillinn er stærsta ráðstefna ársins innan félagsvísinda í Háskóla Íslands en þar koma saman fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands og meistara- og doktorsnemar og kynna spánnýjar rannsóknir. Alls verður boðið upp á rúmlega 200 erindi í rúmlega 50 málstofum að þessu sinni og fara þær fram víða um háskólasvæðið.

Rannsóknir og verkefni sem kynnt verða á Þjóðarspeglinum snerta félagsvísindi í sinni breiðustu mynd, þar á meðal félagsfræði, mannfræði, þjóðfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, viðskiptafræði, markaðsfræði, lögfræði, stjórnmálafræði og kynjafræði. 

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Hein de Haas, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Amsterdam sem flytur erindið „International Migration: Myths and Facts“ í Hátíðasal Háskólans kl. 9.30. Hann er meðal fremstu fræðimanna á sviði fólksflutninga og einn af stofnendum og fyrrverandi formaður International Migration Institute við Oxford-háskóla. Rannsóknir hans snúa að tengslum milli fólksflutninga og víðari félagslegra breytinga. Hann hefur skrifað fjölmargar greinar og bækur um orsakir fólksflutninga og áhrif stefnumótunar á lífsskilyrði innflytjenda og fært rök fyrir því að helsti drifkraftur fólksflutninga til Evrópu sé þörf evrópska hagkerfisins fyrir ódýrt vinnuafl. 

Að loknu erindi de Haas, kl. 11, verður boðið upp á pallborðsumræður þar sem fjallað verður um stöðu erlends starfsfólks á Íslandi. Þar verður leitað svara við ýmsum spurningum eins og: Stendur erlent starfsfólk jafnfætis íslensku starfsfólki hvað varðar réttindi og kjör eða er því mismunað? Hefur það möguleika á störfum sem hæfa menntun þeirra og reynslu? Ef mismunun fyrirfinnst, er þá um að ræða fáar undantekningar eða útbreidda iðju?

Gestir í pallborði verða Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, Dovelyn Rannveig Mendoza, sérfræðingur við Migration Policy Institute, Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags.

Fundarstjóri er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

Viðburðurinn er skipulagður sem hluti af verkefninu „Hreyfanleiki og þverþjóðleiki á Íslandi“.

Hægt er að kynna sér heildardagskrá Þjóðarspegilsins og ágrip allra erinda á glænýjum vef ráðstefnunnar. 

Ókeypis er á allar málstofur á Þjóðarspeglinum og ráðstefnan öllum opin.

""