Tilgangur sjóðsins er í samræmi við tilgang gjafar Páls í erðaskrá hans – að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada. Tilganginum skal framfylgt með því að stofna sjóð sem veitir stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða styrkir verkefni sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti. Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til Háskóla Íslands árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887. Hann var síðar bóndi í Saskatchewan í Kanada. Páll lést 11. maí árið 1966. Stofndagur sjóðsins telst 1. desember 2003. Stjórn sjóðsins Með stjórn sjóðsins fer rektor Háskóla Íslands og ákveður hann um úthlutun úr sjóðnum hverju sinni samkvæmt tilgangi hans. Staðfest skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Sjóð Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli. 1. grein Sjóðurinn heitir Sjóður Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli. Hann er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli (f. 26. júní 1887), síðar bónda í Saskatchewan í Kanada, til Háskóla Íslands sem getið er í erfðaskrá hans dagsettri 26. febrúar 1963. Páll lést 11. maí árið 1966. Stofndagur sjóðsins telst 1. desember 2003. Sjóðurinn er í umsjá styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undur sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. 2. grein Tilgangur sjóðsins er í samræmi við tilgang gjafar Páls í erfðaskrá hans – að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba, Kanada. Tilganginum skal framfylgt með því að stofna sjóð sem veitir stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða styrkir verkefni sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti. 3. grein Stofnframlag sjóðsins er: Arfur frá Páli Guðmundssyni sem ávaxtaður hefur verið í styrktarsjóðum Háskóla Íslands frá árinu 1973. Bókfært virði þessarar eignar 31. desember 2002 í endurskoðuðum ársreikningi styrkarsjóða Háskóla Íslands nam kr. 8.673.775, Fjárhæð frá Canada Trust sem barst Háskólanum árið 1995. Bókfært virði þessa fjár 31. desember 2002 í endurskoðuðum ársreikningi styrktarsjóða Háskóla Íslands nam kr. 818.018,– Verðtryggt stofnframlag sjóðsins má ekki skerða. Tekjur sjóðsins eru: Vextir og arður af eignum sjóðsins. Fé og annað verðmæti sem safnast í nafni sjóðsins. Sjóðurinn skal ávaxtaður á hagkvæmastan hátt á hverjum tíma og með sama hætti og aðrir sjóðir og gjafir í vörslu styrktarsjóða Háskóla Íslands. Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðanda styrktarsjóða Háskóla Íslands og birtir með sama hætti og aðrir reikningar styrktarsjóða Háskóla Íslands. Heimilt er að úthluta allt að 2/3 af ávöxtun hvers árs, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga en sá hluti sem er óúthlutað skal leggjast við stofnframlag. 4. grein Með stjórn sjóðsins fer rektor Háskóla Íslands og ákveður hann um úthlutun úr sjóðnum hverju sinni samkvæmt tilgangi hans. Þó skal hann annars vegar leita ráðgjafar hjá deildarforsetum á þeim fræðasviðum sem ætlunin er að styrkja hverju sinni og hins vegar skal hann taka mið af því fé sem laust er til ráðstöfunar úr sjóðnum. Að jafnaði skal auglýsa eftir umsóknum í sjóðinn í báðum háskólunum en rektor er sem fyrr segir frjálst að úthluta styrkjum án auglýsinga. Úthlutun skal að jafnaði fara fram árlega en telji rektor ekki tilefni til úthlutunar er honum heimilt að leggja saman styrki fleiri ára og úthluta í einu lagi. Greint skal frá styrkveitingunni opinberlega. 5. grein Verði sjóðurinn lagður niður renna fjármunir hans til málefna tengdra tilgangi sjóðsins. Ákvörðun um að leggja niður sjóðinn er á hendi rektors að höfðu samráði við stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands og í samræmi við ákvæði laga sem við geta átt. 6. grein Um starfsemi sjóðsins fer eftir því sem segir í lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Staðfestingar dómsmálaráðherra skal leitað á skipulagsskrá þessari og breytinga sem kunna verða gerðar á henni. Reykjavík 16. desember 2004 Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands Vottar Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur Háskóla Íslands Ásta Hrönn Maack, forstöðumaður styrktarsjóða Háskóla Íslands facebooklinkedintwitter