Ráðstefna til heiðurs Ragnari Árnasyni
Þann 14. júní síðastliðinn héldu Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt (RNH) auk annarra aðila, alþjóðlega ráðstefnu til heiðurs Ragnari Árnasyni í tilefni af sjötugs afmæli hans á árinu.
Fjórir heimsþekktir fiskihagfræðingar töluðu á ráðstefnunni undir heitinu „Úthafsveiðar heims: Í áttina að sjálfbæru og arðbæru kerfi“. Þeir voru prófessorarnir Trond Bjorndal, Rögnvaldur Hannesson, Gordon Munro og James Wilen. Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ráðstefnuna og rifjaði upp, að prófessorsembætti í fiskihagfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1989, en Ragnar, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir, var fyrsti og eini prófessorinn í greininni.
Að lokum hélt Ragnar Árnason stutt erindi þar sem hann benti á að flestir fiskistofnar heims hefður verið ofnýttir þegar hann fór að gefa fiskihagfræði gaum í kringum 1980 en þetta hefði sem betur fer breyst. Nýting fiskistofna væri víða hagkvæm og að einhverju leiti væri það að þakka fyrirlesurunum fjórum á ráðstefnunni og þeirra brautryðjenda starf á sviði fiskihagfræði.
Nánari upplýsingar um erindi hvers framsögumanns má finna á vef RNH.