Verðlaunuð fyrir lokaverkefni í blaða- og fréttamennsku
Ragnheiður Linnet hlaut á dögunum Blaðamannaverðlaunin 2018 fyrir viðtal við ekkju fyrsta gerviplastbarkaþegans en viðtalið var hluti af lokaverkefni hennar í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem nemandi í blaða- og fréttamennsku hlýtur Blaðamannaverðlaunin fyrir lokaverkefni sitt.
Þrír blaðamenn voru tilnefndir til verðlaunanna fyrir viðtal ársins en auk Ragnheiðar voru það þau Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á Stundinni, og Milla Ósk Magnúsdóttir, fréttamaður á RÚV. Svo fór að dómnefnd veitti Ragnheiði verðlaunin fyrir viðtal við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, ekkju plastbarkaþegans Andemariam Beyene, sem birtist í Mannlífi á síðasta ári. Andemariam var sem kunnugt er fyrsti maðurinn sem gervibarki var græddur í árið 2011 en hann lést árið 2013. Í viðtalinu ræddi ekkjan um aðdraganda ígræðslunnar og hvernig líf fjölskyldunnar umturnaðist eftir aðgerðina. „Viðtalið er vel skrifað og hjartnæmt. Auk þess að greina frá örlögum Merhawit og barnanna veitir það góða innsýn í málið og það sem aflaga fór bæði vísindalega og siðfræðilega,“ sagði m.a. í umsögn dómnefndar Blaðamannafélagsins um viðtalið.
Ragnheiður brautskráðist með meistarapróf í blaða- og fréttamennsku í febrúar síðastliðnum og var lokaverkefni hennar tvíþætt. Annars vegar var um að ræða greinargerð með fræðilegri umfjöllun um skyldur og starfsumhverfi blaðamanna í málum eins og plastbarkamálinu. Hins vegar vann Ragnheiður þrjár blaðagreinar um málið, tvær fréttaskýringar sem birtust í Kjarnanum og áðurnefnt viðtal við Merhawit Baryamikael Tesfaslase sem birtist í Mannlífi sem fyrr segir.