Nemendur við Viðskiptafræðideild verðlaunaðir af Harvard Business School
Fimm nemendur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands fengu á dögunum verðlaun frá Harvard Business School fyrir framlag sitt í alþjóðlega samkeppni sem haldin er á vegum skólans.
Háskóli Íslands er einn af 122 háskólum um allan heim sem kennir námskeiðið Microeconomics of Competition samkvæmt forskrift frá Michael Porter prófessor og samstarfsmönnum hans við Harvard. Námskeiðið er í boði í MS-námi í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands undir heitinu Samkeppnishæfni.
Haustið 2017 sátu 47 nemendur námskeiðið við Viðskiptafræðideild og luku því með því að vinna úttekt á klasa. Að loknu námskeiðinu tilnefndu kennarar þess við Háskóla Íslands, þeir Runólfur Smári Steinþórsson og Gylfi Magnússon, eitt af verkefnunum til samkeppni á vegum Institute of Strategy and Competition with Harvard Business School. Verkefnið fjallaði um tónlistarklasann í Stokkhólmi og bar titilinn Thank you for the Music: The Stockholm Music Cluster. Höfundar voru Aldís Sunna Ólafsdóttir, Aldís Sveinsdóttir, Björk Gunnarsdóttir, Hjörtur Örn Eysteinsson og Kristín Sverrisdóttir.
Verkefnið varð í þriðja sæti í samkeppninni og fengu allir höfundar verkefnisins skjal því til staðfestingar. Kennarar námskeiðsins og deildarforseti Viðskiptafræðideildar, Ingi Rúnar Eðvarðsson, afhentu skjölin. Á myndina vantar Kristínu Sverrisdóttur, sem býr erlendis.