Annar fundur í fundaröð um eflingu tjáningarfrelsis
Annar fundurinn í málfundarröð Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, Orator, félag laganema og Elsa Iceland var haldinn miðvikudaginn 14. nóvember. Tilefni fundaraðarinnar er starf nefndar forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla og upplýsingafrelsis og hefur nefndin nýlega skilað af sér fimm lagafrumvörpum á þessu sviði og hefur frekari frumvörp í vinnslu.
Framsögufólk á þessum fundi voru Hörður Helgi Helgason, lögmaður, sem fjallaði um ábyrgð hýsingaraðila og gagnageymd fjarskiptafyrirtækja og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður, sem fjallaði um lögbann sem tæki til takmörkunar á tjáningu.
Áhugaverð og upplýsandi umræða skapaðist á fundinum en það sem meðal annars kom fram var ábyrgð hýsingaraðila á að taka úr birtingu efni sem brýtur í bága við lög og jafnframt höfundarvarið efni sem rétthafar og umboðsmenn þeirra vilja fá úr birtingu m.a. vegna falsanna. Þegar kom að fjarskiptafyrirtækjum og gagnageymd þeirra kom meðal annars fram að skylda hvílir á þeim að varðveita gögn að hámarki í 6 mánuði. Einnig var rætt um lögbann sem tæki til takmörkunar á tjáningu sen gæti valdið m.a. dvínandi áhrifum frétta sem falla undir slíkt lögbann, sér í lagi þegar heilu mánuðurnir eða jafnvel ár er um að ræða.
Næsti fundur í fundarröðinni verður haldinn miðvikudaginn 21. nóvember þar sem umfjöllunarefnið verður tjáningarfrelsi, þagnarskylda og uppljóstraravernd og verða framsögumenn þar, Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands.