Nýir deildarforsetar taka við
Þann 1. júlí síðastliðinn urðu deildarforsetaskipti í nokkrum af deildum Háskóla Íslands. Á sama tíma tók gildi ný skipan deilda á Menntavísindasviði sem þýðir að deildir skólans verða 26 í stað 25.
Deildarforsetar starfa við deildir Háskólans til tveggja ára í senn og hafa þeir það hlutverk að veita deildunum faglega forystu og móta stefnu þeirra í samráði við forseta fræðasviðs. Í því felst m.a. skipulag náms og gæði kennslu og rannsókna og tengsl við samstarfsaðila. Deildarforseti situr í stjórn fræðasviðsins ásamt öðrum deildarforsetum, fulltrúa nemenda og forseta fræðasviðsins. Hann er æðsti fulltrúi deildar gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan.
Eftirfarandi breytingar verða á skipan deildarforseta frá og með 1. júlí:
Við Félagsvísindasvið verður breyting á nafni einnar deildar um mánaðamótin en þá verður Félags- og mannvísindadeild að Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Þar mun Stefán Hrafn Jónsson taka við sem deildarforseti og Kristjana Stella Blöndal verður varadeildarforseti. Breytingar verða á forystu Félagsráðgjafardeildar um næstu áramót en þá tekur Guðný Björk Eydal við sem deildarforseti. Við Stjórnmálafræðideild tekur Maximilian Conrad við sem deildarforseti nú um mánaðamótin og varadeildarforseti verður Gunnar Helgi Kristinsson. Á sama tíma tekur Eiríkur Jónsson við sem deildarforseti Lagadeildar og Ása Ólafsdóttir verður varadeildarforseti. Enn fremur tekur Svala Guðmundsdóttir við sem varadeildarforseti Viðskiptafræðideildar.
Sömu deildarforsetar sitja í deildum Heilbrigðisvísindasviðs næstu tvö ár og gert hafa undangengin tvö ár en breytingar verða í þremur af fjórum deildum Hugvísindasviðs. Við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild mun Rúnar Már Þorsteinsson taka við sem deildarforseti og Sólveig Anna Bóasdóttir sem varadeildarforseti. Í Íslensku- og menningardeild mun Torfi Tulinius setjast á stól deildarforseta en Gauti Kristmannsson kemur í stað Torfa sem varadeildarforseti. Í Sagnfræði- og heimspekideild verður Steinunn Kristjánsdóttir deildarforseti og Sverrir Jakobsson varadeildarforseti í stað Steinunnar.
Mikil endurnýjun verður í stjórn Menntavísindasviðs samfara breytingum á deildaskipan en þeim fjölgar úr þremur í fjórar. Nöfn þeirra eru Deild faggreinakennslu, Deild kennslu- og menntunarfræði, Deild menntunar og margbreytileika og Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.
Anna Sigríður Ólafsdóttir verður forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og Ársæll Már Arnarsson mun gegna stöðu varadeildarforseta. Freyja Hreinsdóttir verður forseti Deildar faggreinakennslu og Helga Rut Guðmundsdóttir verður varadeildarforseti. Þá verður Ingólfur Ásgeir Jóhannesson forseti Deildar menntunar og margbreytileika og Guðrún Valgerður Stefánsdóttir gegnir stöðu varadeildarforseta. Enn fremur verður Jónína Vala Kristinsdóttir forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði og Anna Kristín Sigurðardóttir gegnir stöðu varadeildarforseta. Þá má enn fremur geta þess að Kolbrún Þ. Pálsdóttir tekur við starfi forseta Menntavísindasviðs af Jóhönnu Einarsdóttur um mánaðamótin.
Við Verkfræði- og náttúruvísindasvið tekur Rúnar Unnþórsson við sem forseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar og Helmut Wolfram Neukirchen verður varadeildarforseti. Þá mun Magnús Örn Úlfarsson koma inn sem nýr forseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar og Lotta M. Ellingsen verður varaforseti deildarinnar. Enn fremur verður Birgir Hrafnkelsson varadeildarforseti Raunvísindadeildar.