Nemendur á forsetalista fá viðurkenningar
Fjórir nemendur í grunnnámi við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hljóta verðlaun fyrir frábæran námsárangur á fyrsta ári í viðskiptafræði en þeir voru með hæstu meðaleinkunn að loknum prófum fyrsta árs. Verðlaunahafar komast á forsetalista Viðskiptafræðideildar.
Til þess að komast á forsetalista deildarinnar þurfa nemendur að hafa lokið 30 einingum á hvoru misseri, alls 60 einingum á skólaárinu. Eingöngu námskeið, sem tekin eru í dagskóla, eru gjaldgeng og í útreikningi á meðaleinkunn gilda eingöngu próf, sem tekin eru í fyrsta sinn í hverju námskeiði. Einkunnir í sjúkraprófum gilda, en ekki í endurtökuprófum.
Verðlaunahafar eru þau Eva Dögg Kristjánsdóttir, Fjóla Rakel Ólafsdóttir, Hafsteinn Björn Gunnarsson og Sigrún E. Urbancic Tómasdóttir.
Ingi Rúnar Eðvarðsson, forseti Viðskiptafræðideildar, afhenti verðlaunin sem eru í formi peningastyrks en það eru fyrirtækin Inkasso og Olís sem styrktu nemendur í ár. Forsvarsmenn beggja fyrirtækja, þeir Georg Andersen, forstjóri Inkasso, og Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, voru viðstaddir afhendingu styrkjanna.
Viðskiptafræðideild færir þessum tveimur fyrirtækjum þakkir fyrir styrkina.
Í kjölfar styrkveitingarinnar nefndu bæði Georg og Jón Ólafur hversu mikilvægt það væri fyrir fyrirtæki að halda góðum tengslum við helstu menntastofnanir landsins og með styrkjunum vildu Olís og Inkasso sýna í verki að þau hvettu nemendur áfram til góðs árangurs.
Viðskiptafræðideild óskar nemendum innilega til hamingju með árangurinn.