Skip to main content

Mikilvægi grunnrannsókna

Þórarinn Guðjónsson, prófessor í vefjafræði við Læknadeild Háskóla Íslands, er mjög afkastamikill vísindamaður, ekki síst í stofnfrumurannsóknum.

Þórarinn Guðjónsson

„Eins og nafnið ber með sér eru grunnrannsóknir grunnurinn að því sem á eftir kemur, það er ný þekking.“

""

Hann segir að grunnrannsóknir skipti gríðarlega miklu máli. „Ef hús er byggt án sökkuls að þá verða stoðirnar veikar og húsið hrynur. Þessa myndlíkingu má alveg færa yfir á grunnrannsóknir. Eins og nafnið ber með sér eru grunnrannsóknir grunnurinn að því sem á eftir kemur, það er ný þekking. Þekkingin sem kemur úr grunnrannsóknum er síðan hagnýtt af heilbrigðiskerfinu eða lyfjafyrirtækjum þar sem búnar eru til nýjar greiningaraðferðir eða meðferðarúrræði.“

Þórarinn segir að rannsóknahópur hans stundi rannsóknir á stofnfrumum í brjóstkirtli og tengslum þeirra við tilurð og framþróun brjóstakrabbameina. „Í okkar nálgunum notum við mikið þrívíð frumuræktunarlíkön til að líkja sem best eftir aðstæðum í líkamanum og getum þannig betur spáð fyrir um þær breytingar sem eiga sér við myndun brjóstakrabbameina.“