Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
„Ljóst er að ferðamenn sem hingað koma eru mjög áhugasamir um norðurljósin þar sem þeir sækja mikið í slíkar ferðir. Í rannsókn okkar frá 2011, um viðhorf ferðamanna til vetrarferða, sýndu 70% þátttakenda áhuga á að skoða norðurljósin og var það raunar sú tegund afþreyingar sem flestir nefndu,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði.
„Ísland er líka á ýmsan hátt mjög góður kostur fyrir norðurljósaferðir. Það er t.d. mun einfaldara og ódýrara að komast hingað en til Alaska, Grænlands eða Norður-Noregs. Landslagið er tilkomumikið og góðir skoðunarstaðir nálægt þéttbýlissvæðum eða stutt frá helstu samgönguleiðum, jafnvel alveg við hringveginn eins og hérna við Jökulsárlón.“
Í sjónvarpsþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar hittum við Þorvarð einmitt við Jökulsárlón en þar hefur hann sjálfur tekið mikinn fjölda ljósmynda og skeiðmynda (timelapse) af norðurljósum á undanförnum árum. Segja má að Þorvarður nálgist þannig norðurljósin á tvenns konar hátt, sem vísindamaður og ljósmyndari eða listamaður.
Þorvarður Árnason
„Ísland er líka á ýmsan hátt mjög góður kostur fyrir norðurljósaferðir. Það er t.d. mun einfaldara og ódýrara að komast hingað en til Alaska, Grænlands eða Norður-Noregs.“
„Sterkustu norðurljósasýningarnar slá mann algjörlega út af laginu. Ég held að það sé varla hægt að upplifa nokkurt magnaðra náttúrufyrirbæri. Jafnvel veik ljós geta verið afskaplega falleg. Norðurljósin vekja upp alls konar spurningar og vangaveltur um lífið og tilveruna en grunnskilaboðin virðast vera skýr: Heimurinn er fagur.“
Þorvarður er á því að unnt sé að markaðssetja norðurljósin sérstaklega. „Norðmenn hafa t.d. lagt mun meiri áherslu á norðurljósin í opinberri markaðssetningu landsins en við höfum gert. Þetta er þó vandmeðfarið. Í fyrsta lagi helst virkni norðurljósa í hendur við ellefu ára náttúrulega sveiflu í fjölda sólbletta. Við upplifum hámark um þessar mundir en virknin mun síðan dala talsvert á allra næstu árum en eykst svo á ný. Í öðru lagi er ekkert sem tryggir að ferðamenn sjái norðurljós. Virknin er breytileg frá degi til dags og aðstæður á jörðu niðri geta oft komið í veg fyrir norðurljósaskoðun. Skýin byrgja manni oft sýn á dans norðurljósanna í háloftunum.“
Þorvarður segir að ferðamönnum, sem koma til landsins utan háannar, hafi fjölgað gríðarlega á allra síðustu árum og aukningin milli ára hafi verið hlutfallslega mest yfir háveturinn. „Þá er auðvitað gósentími norðurljósanna.“
Sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar er sýnd á RÚV.