Flýgur sagan um Hans Jónatan
Bók sem Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, ritaði um Hans Jónatan, Manninn sem stal sjálfum sér, hefur vakið feiknarathygli víða um heim á síðustu dögum og vikum í framhaldi af uppgötvunum í erfðafræði ef þannig má að orði komast.
En hver var þessi Hans Jónatan? Örlögin bundu þannig um hnúta að árið 1802 flutti til Íslands þeldökkur maður, þræll og stríðshetja frá Jómfrúreyjum, danskri nýlendu í Karíbahafi. Og hvar ætli hann hafi sest að? Jú, óvænt á Djúpavogi þar sem hann kvæntist og gerðist verslunarmaður og bóndi.
Þótt nafn Hans Jónatan hafi á vissan máta verið sveipað töfrum eru viðtökur við bókinni um margt magnaðri en ætla mætti. Birtar hafa verið umsagnir og viðtöl við Gísla í fjölmiðlum víða um heim og nú síðast var danski fjölmiðillinn Politiken með mikla umfjöllun um leitina að föður Hans Jónatans með aðstoð erfðafræðinnar. Endurgerð erfðamengis Hans Jónatans á vegum Íslenskrar erfðagreiningar hefur þannig vakið feiknarathygli víða um heim enda um stórtíðindi að ræða en þetta er í fyrsta skipti sem drjúgur hluti erfðamengis manneskju hefur verið endurgerður án nokkurra líkamsleifa.
„Ég ímyndaði mér í upphafi, þegar ég réðst í að rita ævisögu Hans Jónatans, að efnið ætti erindi til margra, til almennings og fræðimanna bæði hér á landi og erlendis. Viðtökurnar hafa samt komið mér í opna skjöldu, sérstaklega undanfarnar vikur,“ segir Gísli um alla þá athygli sem hann og verkið hefur fengið. „Endurgerð erfðamengis Hans Jónatans á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og fregnir af henni í fjölmiðlum víða um heim hafa beint sjónum að ævisögunni - gert Hans Jónatan að íkoni, helgisögn eða alþjóðlegu númeri, eins og stundum hefur verið komist að orði.“
Boðskapurinn ekki síður mikilvægur nú en áður
Gísli segir að sem höfundi þyki honum vissulega vænt um að sagan og bókin fari út fyrir landsteinana. Bókin hafi ákveðinn boðskap að færa sem eigi víða erindi við fólk, hún veki athygli á örlögum þræla á síðustu öldum og minni á að kynþáttahyggja sé ekkert náttúrulögmál og að mikilvægt sé að standa vörð um grundvallarmannréttindi. „Þessi boðskapur er, því miður, ekki síður mikilvægur nú en áður. Ég býst við að umfjöllun um endurgerð erfðamengis Hans Jónatans njóti líka góðs af ævisögunni. Byltingarkennt erfðaverkefnið öðlast dýpri merkingu en ella fyrir það að óvenjulegur ferill mannsins, sem það snýst um, er nokkuð vel þekktur.“
Grefur stöðugt eftir meiri þekkingu um Hans Jónatan
Gísli segist oft hafa haft efasemdir um að hann hefði erindi sem erfiði í verkefni af þessu tagi en þegar til lengdar lætur borgi sig að láta innsæið ráða för. „Óvenjuleg verkefni sem jafnvel virðast fánýt sérviska, á skjön við flest sem maður hefur áður gert eða hlotið menntun og þjálfun til að sinna, bera stundum meiri árangur en margt annað. Ég held ég geti sagt með sanni að ævisagan um Hans Jónatan snerti mig meir en flest annað sem ég hef komið nærri sem mannfræðingur og sem manneskja.
Stundum er sagt að ævisöguritarar verði ekki samir eftir erfiða glímu við manneskjuna sem verk þeirra fjalla um. Sumir vinir mínir stríða mér á því að svo rækilega hafi Hans Jónatan orðið hluti af sjálfum mér að hann muni aldrei hverfa úr lífi mínu; sífellt birtist nýjar hliðar sem mig óri aldrei fyrir. Kannski fann höfundurinn sig knúinn að stela sjálfum sér þegar hann ritaði bók sína um Fjallið sem yppti öxlum.
Það er hins vegar ánægjulegt að sjá samfélag afkomenda Hans Jónatans vakna. Nú freista þeir þess að öðlast enn meiri vitneskju um uppruna sinn, m.a. svara spurningunni um faðerni Hans Jónatans sem ekki hefur verið unnt að svara með vissu til þessa. Gætu menn komist að hinu sanna með erfðarannsóknum og rannsóknum á líkamsleifum í fjarlægum kirkjugörðum?
Mér þykir líka vænt um að sú athygli sem erfðaverkefnið og ævisagan hafa vakið hefur orðið sumum afkomenda Hans Jónatans hvatning til að óska eftir því að dönsk yfirvöld veiti honum uppreist æru og minnist hans og annarra sem hnepptir voru í þrældóm með áþreifanlegum hætti. Þessi saga hefur legið í þagnargildi í Danaveldi og ég er stoltur ef mitt verk getur hjálpað til að breyta þessu.“
Eignarhald á fólki og viðbrögð við hörundslit
Gísli segist hafa þá trú að verkefnið um Hans Jónatan leiði í ljós að íslenskt samfélag er, og hafi löngum verið, mun fjölbreyttara en við höfum haldið. „Sjálfsmyndin er að breytast og það er gott; við sópum síður viðkvæmum dráttum og viðfangsefnum undir teppið. Um leið haslar fjölbreytt vísindasamfélagið sér völl á alþjóðavettvangi. Mannvísindi, í víðum skilningi, eru að sækja í sig veðrið. Rannsóknin á ævi og örlögum Hans Jónatans leiðir í ljós mikilvægi þess að tengja örsögur fólks við stærri línur í sögu og samfélagi. Um leið og hún miðlar fræðilegum sjónarmiðum og niðurstöðum um líf eins manns til almennings vekur hún áleitnar spurningar, m.a. um eignarhald á fólki og viðbrögð við hörundslit, hvað það er að vera „öðruvísi“ og hvernig það er skilgreint,“ segir Gísli Pálsson.
Hér að neðan eru nokkur dæmi um umfjöllun erlendra vefsíðna um Hans Jónatan frá og með 15. janúar sl.
http://bgr.com/2018/01/18/hans-jonatan-dna-recreated-descendant-genome/
https://www.theatlantic.com/science/archive/2018/01/hans-jonatan-iceland...
http://www.newsweek.com/only-black-man-1800s-iceland-left-no-remains-now...
http://realitesbiomedicales.blog.lemonde.fr/2018/01/19/le-genome-dun-esc...
https://www.zmescience.com/medicine/genetic/genome-first-african-iceland...
https://www.sciencealert.com/scientists-recreate-genome-of-famous-18th-c...
http://nyheder.tv2.dk/samfund/2018-01-16-ny-forskning-sporer-dansk-slave...
https://futurism.com/dna-man-died-1827-recreated-remains/
https://www.newscientist.com/article/2158594-dna-of-man-who-died-in-1827...
http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-5272825/Geneticists-recon...