Samstarf um bataskóla að breskri fyrirmynd
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Anna G. Ólafsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Bataskóla Íslands, undirrituðu á dögunum nýjan samning um samstarf á sviði vettvangsnáms, kennslu og rannsókna. Bataskólinn var stofnaður í Reykjavík fyrr á þessu ári og hófu fyrstu nemendur nám við skólann síðasta haust. Meginmarkmið starfseminnar er að bæta lífsgæði fólks með geðrænar áskoranir og draga úr fordómum almennings gagnvart geðrænum vandamálum.
Samningurinn kveður á um samstarf stofnananna við leiðsögn og kennslu í vettvangsnámi nema í tómstunda- og félagsmálafræði, eflingu rannsókna og endurmenntun starfsmanna. Þá hyggjast aðilar samningsins vinna að sameiginlegri stefnumótun um vísindi og rannsóknastörf í þágu þessa mikilvæga málaflokks.
Markmið hins nýja samnings eru m.a. að styrkja vettvangsnám og kunnáttu nemenda og tryggja að báðir aðilar hafi aðgang að sérþekkingu hvorrar stofnunar fyrir sig.
Bataskólinn er rekinn af Geðhjálp og Reykjavíkurborg í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landspítalann og samráðsvettvangs geðúrræða á höfuðborgarsvæðinu. Skólinn er byggður upp að breskri fyrirmynd en Bretar eru frumkvöðlar á sviði slíkra stofnana og reka ríflega þrjátíu bataskóla þar í landi. Hugmyndafræðin hefur breiðst út á síðustu árum og eru sams konar stofnanir reknar víða í Evrópu og Asíu. Í Bataskólanum er boðið upp á margvísleg batatengd námskeið í tveggja missera námi en markhópur skólans eru einstaklingar sem hafa glímt við geðrænar áskoranir, aðstandendur þeirra og fagfólk á heilbrigðis- og velferðarsviði. Fulltrúi Menntavísindasviðs í yfirstjórn Bataskólans er Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði.
Samningurinn, sem undirritaður var við Háskóla Íslands 12. desember, gildir til tveggja ára eða til lok árs 2019.