Rannsóknasetur um smáríki hlýtur styrk úr Jean Monnet áætlun ESB
Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nú í haust styrk úr rannsóknaáætlun Evrópusambandsins, Jean Monnet Projects. Um er að ræða tveggja ára verkefni sem ber heitið Post-Brexit Europe: Lessons from the European Economic Area, þar sem skoðað verður hvort Bretar geti að einhverju leyti nýtt sér reynslu EES/EFTA-ríkjanna til þess að byggja upp nýtt samstarf við ESB.
Styrkurinn hljóðar upp á 44.373 evrur, jafnvirði rúmlega 5,6 milljóna króna, og verður hann notaður til þess að skipuleggja vinnustofur fræðimanna í Osló, Brussel og Cambridge ásamt því að halda stóra ráðstefnu í Reykjavík vorið 2019. Í lok hverrar vinnustofa verða gefnar út stefnumótandi tillögur og mun verkefninu síðan ljúka með útgáfu bókar á haustmánuðum 2019.
Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mun leiða verkefnið fyrir hönd Háskóla Íslands ásamt Jóhönnu Jónsdóttur sérfræðingi, Piu Hansson forstöðumanni Alþjóðamálastofnunar, og Tómasi Joensen, verkefnisstjóra hjá Rannsóknasetri um smáríki.
Styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins, sem hlaut einnig nýverið styrk úr Jean Monnet Networks áætlun Evrópusambandsins fyrir alþjóðlegu rannsóknarverkefni um stöðu smáríkja í Evrópu.