Skip to main content
15. september 2017

Hlýtur viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsókn

Ís-Forsa, samtök um rannsóknir í félagsráðgjöf, auglýsa árlega eftir tilnefningum vegna framúrskarandi framlags til rannsókna á meistarastigi á sviði félagsvísinda. Matsnefnd hefur nú tilkynnt að viðurkenningu Ís-Forsa fyrir árið 2017 hlýtur Svava Davíðsdóttir fyrir verkefnið „Ég fór þetta á hnefanum“. Reynsla og upplifun barna af því að eiga foreldri í fangelsi. Í rökstuðningi matsnefndar kemur fram að um er að ræða mikilvægt framlag sem varpar ljósi á líðan og stöðu ósýnilegs hóps í samfélaginu. „Verið er að rannsaka hóp sem hefur verið falinn og dregur höfundur fram afleiðingar þess að lenda í slíkum aðstæðum. Verkefnið er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga mjög erfitt með að stíga fram og vantar rödd. Verkefnið gefur þeim þessa rödd og varpar ljósi á mikilvægi þess að þjónusta við börn fanga verði efld markvisst og þeim auðveldað að vinna gegn sálfélagslegum vanda sem fylgir því að eiga foreldri sem afplánar dóm.“ 

Sjö tilnefningar bárust þetta árið:

  1. Björk Vilhelmsdóttir vegna verkefnisins Ungt lesblint fólk utan skóla og vinnumarkaðar. „Það var Everest að sækja um“. Leiðbeinandi: Guðný Björk Eydal.
  2. Kristín Skjaldardóttir vegna verkefnisins „Ég held að Ísland hafi verið stóri lottóvinningurinn. Upplifun ættleiddra einstaklinga erlendis frá af því að alast upp á Íslandi“. Leiðbeinandi: Steinunn Hrafnsdóttir.
  3. Lilja Björk Guðrúnardóttir vegna verkefnsins „Svona gerum við, svona hefur þetta alltaf verið gert“. Sumardvöl í sveit sem úrræði félagsmála- og barnaverndaryfirvalda Reykjavíkurborgar. Leiðbeinendur: Hervör Alma Árnadóttir og Anni G. Haugen.
  4. Maja Loncar vegna verkefnisins Reynsla ungs flóttafólks á Íslandi. Tækifæri, áskoranir og vonir og væntingar í nýju landi. Leiðbeinandi: Guðbjörg Ottósdóttir.
  5. Skúli Ragnar Skúlason vegna verkefnsins Hinn týndi hópur. Að lifa með HIV. Leiðbeinandi: Guðbjörg Ottósdóttir. 
  6. Svava Davíðsdóttir vegna verkefnisins „Ég fór þetta á hnefanum“. Reynsla og upplifun barna af því að eiga foreldri í fangelsi. Leiðbeinendur: Steinunn Hrafnsdóttir og Berglind Ósk Filippíudóttir.
  7. Þóra Ágústa Úlfsdóttir vegna verkefnisins Ómetanleg gjöf, reynsla kvenna sem hafa gefið og þegið egg á Íslandi. Leiðbeinandi: Jónína Einarsdóttir.

Matsnefnd skipa þau Kristján Sturluson, Lára Björnsdóttir og Unnur V. Ingólfsdóttir.

Steinunni Bergmann formaður Ísforsa, Svava Davísdóttir og Steinnunn Hrafnsdóttir sem var leiðbeinandi verkefnisins