Skip to main content
31. ágúst 2017

Kall eftir greinum í desemberhefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla

Frestur til að skila greinum fyrir desemberhefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla 2017 er til 1. október nk. Aðeins er tekið á móti greinum í ritrýnda birtingu og má hér sjá kröfur til greina og afmörkun viðfangsefna

Á vefsvæði tímaritsins er að finna leiðbeiningar fyrir höfunda greina.  Höfundar skili greinum sínum inn á vefsvæði tímaritsins og þurfa að skrá sig þar inn og fylgja leiðbeiningum þar um. 

Veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla er gefið út tvisvar á ári í opnum aðgangi á vefsvæði þess (eða www.stjornmalogstjornsysla.is) í júní og í desember. Ritrýndar greinar hvers árgangs eru gefnar út á prentuðu formi árið eftir. 

Tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla er birtingavettvangur fræðimanna á sviði stjórnmála, stjórnsýslu og tengdra fræðigreina. Í það rita ma. stjórnmála- og stjórnsýslufræðingar (50% greinanna frá 2005), viðskipta- og hagfræðingar (25% greinanna), lögfræðingar (10% greinanna), félagsvísindamenn og sagnfræðingar (15% greinanna). Um 70% höfunda starfa við Háskóla Íslands, 20% við aðra íslenska háskóla og 10% við annað. Þá hafa stjórnmálamenn, embættismenn og starfsmenn ríkis og sveitarfélaga lagt tímaritinu til efni m.a. í almennum greinum.  

Greinar sem birtast í tímaritinu eru metnar í hæsta flokk, til fimmtán stiga, í Matskerfi opinberra háskóla. Í þessu felst viðurkenning á fræðilegu gildi og vinnubrögðum við tímaritið. Þess má geta að á 12 mánuðum, eða frá 1. júní 2016 til og með 31. maí 2017, hafa heimsóknir á vefinn www.irpa.is verið 14.812 og lesnar alls 48.774 síður. Notendur voru  9.955. 59% þeirra voru íslenskir, um 14% bandarískir eða breskir, þar á eftir íbúar annarra norræna ríkja og Indlands en önnur lönd með minna. Auk þess eru prentuð eintök á öllum helstu bókasöfnum landsins. 

Tímaritið er skráð í innlenda og alþjóðlega gagnagrunna. Þeir erlendu eru OAPSA, DOAJ, Google Scholar, Cross ref, Proquest, EBSCO o.fl. Tímaritið er í skráningarferli hjá Scopus sem lýkur á árinu og hjá Thomson Reuter og er komið þar í s.n. Emerging Sources.  

Þegar hafa verið gefin út tuttugu tölublöð á vefnum.  Ritrýndar greinar hvers árgangs hafa verið prentaðar og eru þær bækur fáanlegar hjá Stofnun stjórnsýslufræða.  Einnig er hægt að gerast áskrifandi að prentaðri útgáfu af ritrýndum greinum sem birtast í veftímaritinu og kemur hún út einu sinni á ári. 

Áskrift kostar kr. 4.800,- Möguleiki er á að panta eldri árganga tímaritsins á netfanginu sjofn@hi.is 

Gangur milli Gimlis og Odda