Vorhefti Stjórnmála og stjórnsýslu komið út
Út er komið vorhefti 1. tbl. 13. árg. tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla, sem er í opnum aðgangi.
Í vorheftinu eru 7 ritrýndar fræðigreinar, sjá lista og tengla á greinarnar hér fyrir neðan, en fremst í hverri grein er stutt samantekt á efni hennar. Það er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sem gefur út tímaritið.
Greinarnar fjalla um fjölbreytt efni íslenskrar stjórnsýslu, stjórnmála og fræðastarfs. Megintilgangur tímaritsins er að gera fræðilegt efni af ofangreindum fagsviðum öllum aðgengilegt með það fyrir augum að auka við þekkingu og efla faglega umræðu. Óþarft er að fjölyrða um kosti þess að aðgangur að slíku efni sé ókeypis og öllum aðgengilegur á netinu.
Tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla er birtinga vettvangur fræðimanna á sviði stjórnmála, stjórnsýslu og tengdra fræðigreina. Í það rita m.a. stjórnmála- og stjórnsýslufræðingar (50% greinanna frá árinu 2005), viðskipta- og hagfræðingar (25% greinanna), lögfræðingar (10% greinanna), félagsvísindamenn og sagnfræðingar (15% greinanna). Um 70% höfunda starfa við Háskóla Íslands, 20% við aðra íslenska háskóla og 10% við annað. Þá hafa stjórnmálamenn, embættismenn og starfsmenn ríkis og sveitarfélaga lagt tímaritinu til efni m.a. í almennum greinum.
Tímaritið er eins og áður gat öllum opið á vefnum og er gefið út þar í tveimur tölublöðum á ári, en prentuð útgáfa ritrýndra greina kemur út einu sinni á ári. Á síðasta ári birtust 25 ritrýndar greinar í tímaritinu og fjölgar innsendum greinum ár frá ári.
Þess má geta að síðustu 12 mánuði eða frá 1. júní 2016 til og með 31. maí 2017 hafa heimsóknir á vefinn verið 177.972 og lesnar alls 586.128 síður. Notendur voru 119.628, 59% þeirra voru íslenskir, um 14% bandarískir eða breskir, síðan koma hin Norðurlöndin og Indland, önnur lönd með minna. Auk þess eru prentuð eintök eru á öllum helstu bókasöfnum landsins.
Tímaritið er skráð í innlenda og alþjóðlega gagnagrunna. Þeir erlendu eru OAPSA, DOAJ, Google scolar, Cross ref, Proquest, EBSCO o.fl. Tímaritið er í skráningarferli hjá Scopus sem lýkur á árinu og hjá Thomson Reuter og er komið þar í s.n. Emerging Sources.
Aðalritstjóri tímaritsins er Dr. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. Auk ritstjórnar kemur mikill fjöldi ritrýnenda árlega að mati á greinum. Forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála er Sjöfn Vilhelmsdóttir stjórnmálafræðingur.
Greinar í vorheftinu:
Elítur á Íslandi – einsleitni og innbyrðis tengsl - Magnús Þór Torfason, Þorgerður Einarsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Sigrún Sigurðardóttir
Að þjóna sömu herrum en keppa þó: Sameiginlegt eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði - Ásta Dís Óladóttir, Friðrik Árni Friðriksson, Gylfi Magnússon og Valur Þráinsson
Alþingi og framkvæmdarvaldið - Haukur Arnþórsson
Kosningar, lýðræði og fatlað fólk - Rannveig Traustadóttir og James G. Rice
Does research activity decline with age? - Gylfi Zoega
Viðhorf íslenskra og danskra stjórnenda til starfsumhverfis í ljósi norrænna gilda - Bergþóra Hlín Arnórsdóttir, Einar Svansson og Kári Joensen
Hagnýting menntunar meðal háskólamenntaðs starfsfólks einkarekinna fyrirtækja og opinberra stofnana - Ingi Rúnar Eðvarðsson, Guðmundur Kristján Óskarsson og Jason Már Bergsteinsson