Félagsráðgjafardeild er einn af stofnendum Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og í tengslum við það skapast fjölbreytt samstarf við aðila á vettvangi. Stofn- og samstarfsaðilar RBF eru: Reykjavíkurborg (velferðarsvið), Barnaverndarstofa, Biskupsstofa, Efling-stéttarfélag, félags- og tryggingamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Reykjanesbær. Ári síðar bættist við Umboðsmaður barna.
Kennarar við deildina eru aðilar að ýmsum rannsóknarteymum og verkefnum jafnt innanlands sem erlendis.
Erlent samstarf
Félagsráðgjafardeild tekur virkan þátt í erlendu samstarfi bæði við háskóla og rannsóknarstofnanir. Töluvert er um að samstarfsaðilar frá Norðurlöndunum og víðar komi í heimsóknir bæði til að fræðast og halda fyrirlestra á vegum deildarinnar. Þá fjölgar með ári hverju norrænum nemum sem taka starfsþjálfun sína hér á landi eða einstök námskeið við deildina.
Samstarfssamningar
Deildin hefur gert samstarfssamninga við ýmsa aðila meðal annars um kostun á stöðum. Má þar nefna Framkvæmdasjóð aldraðra, Rauða kross Íslands, Reykjavíkurborg, Barnaverndarstofu, o.fl. Vegna starfsþjálfunar eru samningar við allflest sveitarfélög og ýmsar sérhæfðar stofnanir þar sem félagsráðgjafar starfa.
Virkt samstarf er við háskólann í Lundi og háskólann í Jyväskylä um norrænt meistaranám í öldrunarfræðum.
Félagsráðgjafardeild er aðili að Nordplus og Erasmus og hefur tengsl við ýmsar erlendar háskólastofnanir.
Fagfélag
ÍsForsa er félag um rannsóknir á sviði félagsráðgjafar á Íslandi sem stofnað var vorið 2002. Félagið er aðili að Forsa sem eru norræn samtök um rannsóknir í félagslega geiranum og fræðilega þróun félagsráðgjafar.