Samkvæmt reglum Háskólans er einstökum deildum heimilt að meta námskeið eða námshluta sem þú hefur lokið við aðra deild eða annan skóla.
Þú sækir um mat á fyrra námi til þinnar deildar sem ákveður hvort meta skuli viðkomandi námskeið og þá til hve margra ECTS-eininga.
Deildin aflar umsagnar kennara í viðkomandi grein áður en ákvörðun er tekin.
Deildum Háskólans ber að fara eftir þeim alþjóðlegu samningum um viðurkenningu á háskólamenntun og hæfi sem íslenska ríkið er aðili að við afgreiðslu umsókna um mat á fyrra námi, svo sem Lissabon-sáttmálanum og Reykjavíkuryfirlýsingu menntamálaráðherra Norðurlandanna.
Mismunandi reglur deilda
Reglur deilda um mat á námi geta verið mismunandi.
Þær geta kveðið á um:
- Lágmarksárangur í þeim námskeiðum sem metin eru.
- Hámarksaldur prófa sem metin eru.
Auk þess sem reglur deildanna skulu kveða á um hvort heimilt er að meta námskeið sem áður hafa verið látin gilda til prófgráðu.
Fylgiskjöl
Þegar sótt er um mat á fyrra námi skal fylgja með umsókninni staðfest afrit af prófvottorði ásamt námslýsingum frá viðkomandi skóla.
Í umsókn þinni þarftu að gera grein fyrir hvort sótt er um að viðkomandi nám sé metið sem valnámskeið eða að það komi í stað ákveðins tilgreinds skyldunámskeiðs.