Elítur á Íslandi - einsleitni og innbyrðis tengsl
Í nýjasta tölublaði tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla birtist áhugaverð grein um Elítur á Íslandi.
Höfundar greinarinnar, Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ, Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Sjórnmálafræðideild HÍ, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild HÍ, og Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ, rannsökuðu viðskipta- og atvinnulífselítuna á Íslandi árin 2014 og 2015 út frá tengslum hennar við aðrar elítur, innbyrðis tengslum innan hópsins, búsetudreifingu og einsleitni.
Við fengum einn höfundanna Magnús Þór Torfason til að svara nokkrum spurningum um rannsóknina og niðurstöður hennar.
Hvert er markmið rannsóknarinnar?
Markmið rannsóknarinnar er að greina viðskipta- og atvinnulífselítuna á Íslandi árin 2014 og 2015 út frá tengslum hennar við aðrar elítur, innbyrðis tengslum innan hópsins, búsetudreifingu og einsleitni.
Hvaðan kom hugmyndin að rannsókninni?
Í tengslum við verkefnið „Vald og lýðræði“ var safnað ýmsum gögnum um elítur á Íslandi. Rannsóknarhópurinn ákvað að skoða þessi gögn með tilliti til tengslamyndunar og staðbundinnar félagshegðunar, það er þátttöku í skipulögðu félagsstarfi, til dæmis á vegum stjórnmálahreyfinga eða íþróttafélaga.
Hverjar eru niðurstöður rannsóknarinnar?
Niðurstöðurnar varpa ljósi á þau tengsl sem eru á milli mismunandi elítuflokka á Íslandi, svo sem elíta í viðskipta- og atvinnulífi, fræðasamfélagi, félags- og hagsmunasamtökum, stjórnmálum, stjórnsýslu og öðrum greinum.
Fram kom að búsetudreifing er mjög ójöfn og nokkur póstnúmer skera sig úr að því leyti að hlutfallslega margir íbúar þeirra eru meðlimir í viðskipta- og atvinnulífselítunni sem samanstendur af framkvæmdastjórnum stærstu fyrirtækja landsins.
Þegar litið er til búsetudreifingar innan hverrar framkvæmdastjórnar kemur fram að fólk er mun líklegra til að sitja í framkvæmdastjórn með nágrönnum sínum en með þeim sem búa lengra frá. Þessi tilhneiging er enn sterkari hjá þeim sem eru virkir í stjórmálum eða íþróttahreyfingunni. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það að slík staðbundin félagshegðun stuðli að tengslamyndun og hafi áhrif á val inn í viðskipta- og atvinnulífselítuna.
Hvað kom mest á óvart í niðurstöðunum?
Búsetumynstur var skoðað fyrir viðskipta- og atvinnulífselítuna – meðlimi í framkvæmdastjórnum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Tvö póstnúmer, 210 Garðabær og 170 Seltjarnarnes, skera sig greinilega frá öðrum póstnúmerum, en í þessum póstnúmerum búa 2,5 sinnum fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda. Þéttni elítunnar er mun hærri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Einu þéttbýliskjarnar utan höfuðborgarsvæðisins sem komast á blað eru Reykjanesbær (230) og Akureyri (600, 603) en á báðum þessum stöðum er þéttnin engu að síður lægri en meðaltalið yfir landið.
Greinina er hægt að nálgast á http://www.irpa.is/article/view/a.2017.13.1.1/pdf